Erlent

Að­dáandi Hitlers bað dómara um miskunn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Styttan af Robert E Lee ásamt plaggötum sem krefjast þess að garðurinn Lee Park verði endurnefndur Heyer Park til minningar um konuna sem dó þegar keyrt var inn í þvögu mótmælenda.
Styttan af Robert E Lee ásamt plaggötum sem krefjast þess að garðurinn Lee Park verði endurnefndur Heyer Park til minningar um konuna sem dó þegar keyrt var inn í þvögu mótmælenda. getty/Samuel Corum
Maður sem ók bíl sínum inn í hóp mótmælenda, sem mótmæltu fjöldafundi hvítra þjóðernissinna, í Charlottesville í Virginíu fyrir tveimur árum og drap einn einstakling ásamt því að særa fleiri, hefur beðið dómara að sýna sér miskunn og gefa sér styttri fangelsisvist en lífstíðardóm.

Lögmenn mannsins, sem heitir James Alex Fields yngri, sögðu í dómsskjali á föstudag að ákærði ætti ekki að verja restinni af lífi sínu í fangelsi vegna aldurs, erfiðrar æsku og andlegra veikinda.

Fields er 22 ára gamall og hefur lýst því yfir að hann telji hvíta kynstofninn gædda yfirburðum yfir öðrum kynþáttum. Fields játaði sekt sína, en hann var ákærður fyrir hatursglæpi, í mars og á að dæma hann þann 28. júní næstkomandi.

„Ekkert magn refsinga sem James þarf að sæta mun bæta upp fyrir þann skaða sem hann olli tugum saklausra einstaklinga. En þessi dómur ætti að komast að því að málagjöld hafa sín takmörk,“ skrifaði lögmaður hans.

Saksóknarar svöruðu þessu og sögðu að yfirlýsti gyðingahatarinn og aðdáandi Adolfs Hitler hafi ekki sýnt neina iðrun síðan hann keyrði inn í þvöguna þann 12. ágúst 2017, sem varð aðgerðasinnanum Heather Heyer að bana og særði fleiri.

Saksóknarar segja að Fields eigi lífstíðardóm skilið og bættu við að það myndi koma í veg fyrir að fleiri myndu fremja „innanríkis hryðjuverk lík þessum.“

Mál Fields hefur valdið spennu í málefnum kynþáttamismununar í Bandaríkjunum. Hann játaði sök sína í mars og játaði einnig að hann hafi af ásettu ráði keyrt bílinn inn í hóp mótmælenda.

Mynd af Hitler á náttborðinu

Komist var að samkomulagi um það að ekki yrði sóst eftir dauðarefsingu ef hann játaði glæpi sína. Ákæruliðirnir sem hann játaði sök í kalla eftir lífstíðarfangelsi í viðmiðunarreglum alríkisins.

Fields var sakfelldur í desember í Virginíu fyrir morð og fleiri ákæruliði. Nú er verið að taka fyrir dómsmál á alríkisstigi og á dómurinn í því máli að falla síðar í vikunni.

Fjöldafundurinn 2017 dró hvíta þjóðernissinna til Charlottesville og var þar mótmælt fyrirhugaðri fjarlægingu á styttu af Robert E Lee, herforingja í Suðurríkjasambandinu. Hundruð mótmælenda mætti á mótmælin gegn hvítu þjóðernissinnunum.

Í dómsskjalinu sem fram kom á föstudag lagði lögmaður Fields áherslu á erfiða barnæsku hans og geðræn vandamál en mörg smáatriði voru fjarlægð úr skjölunum. Fields var alinn upp af einstæðri móður sem var lömuð fyrir neðan mitti og varð fyrir áfalli þegar hann komst að því að afi hans, sem var gyðingur, hafði myrt ömmu hans áður en hann tók sitt eigið líf, skrifaði lögmaðurinn.

Saksóknararnir lögðu áherslu á áralanga sögu hans af skjalfestum kynþáttafordómum og framkomu sem einkenndist af gyðingahatri, sem þeir segja meðal annars sjást í því að hann geymdi mynd af Hitler á náttborði sínu. Þeir sögðu einnig að upptaka úr fangelsissíma varpi ljósi á það að hann hafi talað um móður Heyer af mikilli andúð og hafi hann látið svoleiðis ummæli falla allt þar til í síðasta mánuði.

Saksóknarar segja einnig að þótt Fields hafi átt við geðræn vandamál að stríða afsaki það ekki framkomu hans á nokkurn hátt og eigi það ekki að hafa áhrif á dóm hans.

„Dæmi um geðræn vandamál ákærða trompa ekki iðrunarleysi hans né fyrri dæmi um kynþáttafordóma,“ skrifuðu þeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×