Erlent

Sjö látist í miklu fannfergi í Ölpunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það hefur snjóað nær látlaust víða um Evrópu.
Það hefur snjóað nær látlaust víða um Evrópu. Getty/Alexander Hassenstein
Minnst sjö létust um helgina eftir mikið fannfergi í Alpafjöllum í Evrópu. Mikil hætta er á snjóflóðum í Austurríki, Þýskalandi og á Ítalíu. BBC greinir frá.

Tveir þýskir skíðamenn létust í tveimur snjóflóðum í Austurríki. Sá þriðji lést einnig eftir annað snjóflóð í grennd við Salzburg.

Í Bæjaralandi í Þýskalandi lést skíðamaður í grennd við Bad Tölz eftir að tré féll á hann. Ung kona lést í Teisenberg-fjöllunum í snjóflóði.

Þá létust tveir fjallgöngumenn í ítölsku Ölpunum í grennd við Tórínó en fjallabjörgunarmenn fundu lík þeirra í um þrjú þúsund metra hæð yfir sjávarmáli.

Björgunarmenn leita einnig að fjölda manns sem saknað hefur verið í austurrísku og þýsku ölpunum eftir snjókomu helgarinnar. Skíðamenn hafa verið varaðir við því að skíða utan brauta og margir fjallvegir eru lokaðir sökum fannfergis.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.