Sport

Leiðrétting á tölfræði síðasta leiks færði einum leikmanni 122 milljóna bónus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markus Golden hefur verið besti varnarmaður New York Giants á leiktiðinni.
Markus Golden hefur verið besti varnarmaður New York Giants á leiktiðinni. Getty/Emilee Chinn

Hver var að segja að tölfræðin skipti ekki máli? Bandaríski NFL-leikmaðurinn Markus Golden er örugglega ekki í þeim hópi.

Markus Golden er leikmaður New York Giants liðsins í NFL-deildinni og hjálpaði sínu liði að vinna Washington Redskins um síðustu helgi.

Golden er einn af þeim sem eltast við að riðla sóknarleik andstæðinga sinna með því að komast að leikstjórnanda hins liðsins. Leikstjórnendafellur eru því toppurinn hjá varnarmönnum eins og Markus Golden.

Í leiknum á móti Washington Redskins þá náði Markus Golden til Dwayne Haskins, leikstjórnanda Washington Redskins liðsins, en tölfræðingar leiksins töldu að hann hefði fengið það mikla aðstoð frá félaga sínum að Golden var aðeins skráður með hálfa leikstjórnendafellu.



Þegar farið var yfir tölfræðina nokkrum dögum seinna kom hið sanna í ljós og Markus Golden var skráður með fulla leikstjórnendafellu.

Þetta hafði mikil og bein áhrif á bankareikning Golden því þetta þýddi að hann er nú kominn með tíu leikstjórnendafellur á leiktíðinni.

Markus Golden gerði eins árs samning við New York Giants. Hann fékk 3,75 milljónir dollara í laun en að auki var hann með eina milljón í bónus ef hann myndi ná tíu leikstjórnendafellum á leiktíðinni.

Þessi umrædda leiðrétting á tölfræði síðasta leiks færði honum því 122 milljóna bónus sem verður nú að teljast ágætis jólagjöf.

Golden varð fyrsti leikmaður New York Giants í fimm ár til að ná tíu leikstjórnendafellum eða síðan Jason Pierre-Paul náði 12,5 árið 2014.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×