Sport

Patriots aftur gripið við að mynda ólöglega

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bill Belichick, þjálfari Patriots, gerir alla jafna allt til þess að vinna.
Bill Belichick, þjálfari Patriots, gerir alla jafna allt til þess að vinna. vísir/getty

Nýr myndbandsskandall skekur nú NFL-meistara New England Patriots en forráðamenn félagsins segja að nú hafi félagið brotið af sér óviljandi.

Starfsfólk Patriots var mætt á leik Cincinnati Bengals og Cleveland Browns til þess að mynda en tók nokkurra mínútna myndband af því sem Bengals var að gera á bekknum. Það er ólöglegt og brot á reglum deildarinnar.

Patriots viðurkennir brotið sem er sagt hafa verið óviljandi og myndefnið hluti af þáttaseríu sem verið er að gera. Vandamálið er að það gleymdist að láta Bengals og NFL-deildina vita af þessu.

Patriots spilar við Bengals um næstu helgi og í raun trúir enginn að liðið hafi verið að svindla að þessu sinni. Bengals er eitt lélegasta lið deildarinnar og hefur aðeins unnið einn leik í vetur. Patriots þarf því ekkert að svindla.

NFL-meisturunum var aftur á móti refsað grimmilega fyrir að njósna árið 2007. Árið 2015 varð félagið svo sektað fyrir að vera með of lítið loft í boltanum. Þá kom há sekt og leikstjórnandinn Tom Brady fór í fjögurra leikja bann.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×