Handbolti

Holland heimsmeistari eftir hádramatík

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Holland er heimsmeistari í handbolta í fyrsta sinn.
Holland er heimsmeistari í handbolta í fyrsta sinn. EPA-EFE/HIROSHI YAMAMURA

Holland er heimsmeistari kvenna í handbolta eftir sigur á Spánverjum með minnsta mun, 29-30, í úrslitaleik HM sem fram fór í Kumamoto í Japan í dag.

Úrslitin réðust á lokasekúndunum þar sem segja má að umdeildur dómur hafi ráðið úrslitum. Staðan var 29-29 þegar Spánverjar héldu í sókn með 30 sekúndur eftir af leiknum. 

Sókn þeirra endaði með slæmu skoti en í kjölfarið átti markmaður Hollands sendingu fram völlinn sem var varin af spænskum leikmanni. Dómarar leiksins flautuðu í kjölfarið og vildu meina að Spánverjinn sem stal boltanum hafi verið innan vítateigs þegar hún komst fyrir sendinguna. Spænski leikmaðurinn var klárlega utan vítateigs þegar hún stökk upp en hún stökk áfram og mjög erfitt að segja til um hvort hún hafi verið innan vítateigs þegar hún fékk boltann í sig.

Þar sem atvikið gerðist á síðustu 10 sekúndum leiksins var dæmt rautt spjald og vítakast sem Hollendingar skoruðu úr og tryggðu sér þar með sinn fyrsta heimsmeistaratitil.

Estavana Polman var markahæst hollenska liðsins með 7 mörk en Cabral Barbosa gerði 6 fyrir Spánverja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×