Erlent

Sex ára stúlka meðal þeirra sem létust í jarð­skjálfta á Filipps­eyjum

Eiður Þór Árnason skrifar
Skjálftinn er sá síðasti í hrinu jarðhræringa á svæðinu.
Skjálftinn er sá síðasti í hrinu jarðhræringa á svæðinu. Vísir/EPA

Sex ára stúlka er á meðal þeirra þriggja sem létust þegar jarðskjálfti að stærð 6,8 skók eyjuna Mindanao á suðurhluta Filippseyja í dag.

Stúlkan er sögð hafa verið heima hjá sér þegar hús fjölskyldunnar hrundi í jarðskjálftanum, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum.

Samuel Tadeo, yfirmaður slökkviliðsins á svæðinu, hefur staðfest við fjölmiðla að þrír hafi látið lífið í skjálftanum. Einnig hefur verið greint frá því að þriggja hæða bygging hafi hrunið.

Eyjan sem um ræðir er önnur stærsta eyjan á Filippseyjum og vinsæll ferðamannastaður þar í landi.

Tilkynnt hefur verið um alvarlegar skemmdir á skólabyggingum vegna skjálftans en þær voru flest allar tómar þegar skjálftinn reið yfir.

Yfirvöld í Davao, stærstu borg eyjarinnar, hafa lokað fyrir umferð yfir brýr vegna skemmda og aflýst kennslu í skólum á morgun.

Fréttastofa ríkisfjölmiðilsins þar í landi greinir frá því að Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hafi verið staddur á heimili sínu í Davao þegar skjálftinn reið yfir.

Hann er sagður vera óhultur en að heimili hans sé lítillega skemmt. Bandaríska jarðvísindastofnunin gaf út í dag að engin hætta væri á flóðbylgjum í kjölfar skjálftans.

Um er að ræða síðasta skjálftann í hrinu jarðhræringa á eyjunni síðustu mánuði. Í október síðastliðnum létust fjórtán á eyjunni þegar skjálftar að stærð 6,5 og 6,6 skóku svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×