Erlent

Heitasti dagur sögunnar í Ástralíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Ástralir upplifðu í gær heitasta dag sögunnar í landinu. Þá er þetta vor það versta sem sést hefur þegar litið er til þess hversu mikil hætta er á skógareldum en undanfarinn einn og hálfan mánuð eða svo hafa gríðarmiklir skógareldar geisað í landinu.

Að því er fram kemur á vef Guardian mældist meðalhitinn yfir landið 40,9 gráður. Metið var síðast slegið í janúar 2013 þegar meðalhitinn mældist 40,3 gráður en þá var meira en 100 ára gamalt met slegið; meðalhitinn hafði áður mælst hæstur árið 1910.

Veðurstofa Ástralíu greindi frá hitametinu auk þess sem stofnunin sagði frá þeirri miklu hættu sem er víðast hvar í landinu á meiri skógareldum. Veðrið nú væri á þann veg að 95 prósent landsins væri í hættu á að þar kvikni skógareldar, sem er vel yfir meðaltali.

Í sérstakri yfirlýsingu veðurstofunnar kom fram að síðan í september hefur mikil hætta verið á skógareldum á austurströnd landsins. Þar hafa miklir eldar geisað undafarið og hundruð heimila brunnið til grunna.

Þá er vorið í ár, september til nóvember, það þurrasta og næstheitasta í sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×