Erlent

Móðirin í Tromsø grunuð um mann­dráp og til­raun til mann­dráps

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Tromsø í Norður-Noregi.
Frá Tromsø í Norður-Noregi. Getty
Lögregla í Noregi rannsakar nú dauðsföllin í Tromsø sem sakamál og er móðirin grunuð um að hafa banað sjö ára dóttur sinni og tilraun til dráps á fjögurra og eins árs dætrum sínum.

Frá þessu greindi norska lögreglan á blaðamannafundi í morgun. Mæðgurnar fundust í sjónum síðdegis í gær og var engin þeirra með lífsmarki.

Endurlífgun var þá reynd, en greint var frá því í gærkvöldi að ein stúlknanna, sú sjö ára, hafi þá verið úrskurðuð látin. Í morgun var svo tilkynnt að móðirin, sem var á þrítugsaldri, hafi einnig látið lífið. Hinar dæturnar, eins og fjögurra ára, eru báðar í lífshættu og dvelja nú á Ríkissjúkrahúsinu í Osló.

Komu frá Súdan

Mæðgurnar eru upprunalega frá Súdan og höfðu landvistarleyfi í Noregi. Faðir barnanna kom til Noregs árið 2015 og kom konan til landsins árið 2017. Fjölskyldan hefur ekki komið við sögu lögreglu áður.

Lögregla lagði á blaðamannafundinum í morgun áherslu á að rannsókn sé skammt á veg komin þar sem meðal annars sé unnið eftir þeirri kenningu að konan hafi reynt að bana stúlkunum. Ekki sé þó hægt að útiloka aðkomu annarra að málinu.

Faðir stúlknanna er með stöðu vitnis í málinu og var yfirheyrður í gærkvöldi. Lögregla hefur ekki greint frá því hvar hann var staddur þegar tilkynnt var um fundinn. Lögregla þekkir til þess að fólkið eigi aðra fjölskyldumeðlimi í Noregi.

Flaggað var í hálfa stöng í Borgtun-skólanum í Tromsø í morgun þar sem sjö ára stúlkan stundaði nám.



Yfirgefinn barnavagn

Lögreglu var tilkynnt um það klukkan 17:28 að staðartíma í gær að yfirgefinn barnavagn hafi fundist skammt frá sjónum og fótspor sem leiddu niður að sjó. Björgunarlið fann svo fjóra í sjónum skömmu síðar.

Alls hafa tíu manns verið yfirheyrðir vegna málsins að því er fram kemur í frétt NRK.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×