Innlent

Íslensk stjórnvöld sett sig í samband við þau tyrknesku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Utanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna takast hér í hendur, en útspil stjórnvalda í Washington á sunnudag hleypti af stað atburðarásinni sem nú á sér stað í norðausturhluta Sýrlands.
Utanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna takast hér í hendur, en útspil stjórnvalda í Washington á sunnudag hleypti af stað atburðarásinni sem nú á sér stað í norðausturhluta Sýrlands. Vísir/Vilhelm
Utanríkisráðuneytið segist hafa komið óánægju sinni með hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi á framfæri við tyrknesk yfirvöld með formlegum hætti. „Hernaðaraðgerðirnar samræmast ekki alþjóðalögum og er þess krafist að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna. Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Innrás Tyrkja í Sýrland hófst í gær eftir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, féllst á að draga bandarískt herlið sem hefur starfað náið með Kúrdum í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í norðanverðu Sýrlandi. Tyrkir létu sprengikúlum rigna yfir skotmörk í Sýrlandi í gær og hermenn eru nú sagðir sækja lengra inn í landið.

Utanríkisráðuneytið segir íslensk stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófríðarbálið á svæðinu. Það myndi gera „að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytsins.

Það rímar við yfirlýsingu utanríkisráðherra, sem hann sendi frá sér á Twitter í gær. „Það er þörf á vopnahléi í Sýrlandi, ekki frekari stigmögnun,“ skrifaði Guðlaugur Þór Þórðarson og kallaði eftir vopnahléi á svæðinu.

Tyrklandsforseti lýsti því yfir í morgun að Tyrkir gætu hugsað sér að senda þær milljónir flóttamanna sem hírast í landinu til Evrópu, fari svo að Vesturlönd setji sig upp á móti aðgerðum Tyrklandshers í Sýrlandi.

„Tyrkir hafa sannarlega tekið á móti miklum fjölda flóttamanna frá Sýrlandi en það er skýr afstaða íslenskra stjórnvalda að aðgerðir sem þessar séu síst til þess fallnar að skapa aðstæður til að flóttafólk geti snúið aftur til síns heima, enda líklegt að þær stuðli fremur að áframhaldandi átökum en varanlegum friði,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins og bætt við að íslensk stjórnvöld ætli sér að fylgjast með framvindu málsins næstu daga.

Þau ætli sér að leggja áherslu á það ásamt öðrum ríkjum að hernaðaraðgerðum verði hætt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×