Sport

Heimsmeistari í andahvísli vann leik í NFL-deildinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hodges leiðir sitt lið til leiks í gær.
Hodges leiðir sitt lið til leiks í gær. vísir/getty

Pittsburgh Steelers skellti LA Chargers í NFL-deildinni í nótt með Devlin Hodges sem leikstjórnanda. Sá kappi á ekki alveg sama bakgrunn og flestir aðrir í deildinni.

Það var fátt sem benti til þess að Hodges myndi ná að spila í deildinni fyrir nokkrum vikum síðan. Svo meiðist Ben Roethlisberger, leikstjórnandi Steelers. Hodges var í æfingahópi Steelers og var kallaður upp í hópinn vegna meiðsla Big Ben.

Svo meiðist Mason Rudolph og þá átti Steelers ekkert annað en Hodges. Hann fékk því óvænt tækifæri í byrjunarliðinu í nótt og nýtti það í botn í sigri í LA.

Hodges kláraði 15 af 20 sendingum sínum í leiknum fyrir 132 jördum, einu snertimarki og einum töpuðum bolta. Ekki ónýt frumraun hjá nýliðanum.

Leikstjórnandinn kom úr hinum lítt þekkta Samford-háskóla þar sem hann sló fjölda meta. Þrátt fyrir það var hann ekki eftirsóttur en Steelers sá eitthvað í honum.

Það sem gerir hann svo enn sérstakari er sú staðreynd að hann er fyrrum heimsmeistari í andahvísli eða andakalli. Hann er frábær með andaflautuna á veiðum og kann betur en flestir að lokka til sín endur.

Enda er hann aldrei kallaður annað en „Duck“ eða Önd. Þegar hann var 13 ára gamall vann hann heimsmeistaramót í andahvísli. Það hefur enginn annar í NFL-deildinni gert áður.
Í Samford þekkir enginn Devlin. Það þekkja bara allir Duck sem æfði sig mikið með flautuna í fjölda ára.


NFL

Tengdar fréttir

Niners er ósigrandi og Kansas tapaði aftur

Það var nóg af óvæntum úrslitum í NFL-deildinni í gær og San Francisco 49ers sannaði fyrir öllum að þar er á ferðinni alvöru lið á nýjan leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.