Erlent

Kalla eftir því að lög­reglu­maðurinn verði á­kærður

Sylvía Hall skrifar
Blóm og bangsar voru lagðir á stéttina fyrir utan heimili Jefferson eftir að hún var skotin til bana af lögreglumanni.
Blóm og bangsar voru lagðir á stéttina fyrir utan heimili Jefferson eftir að hún var skotin til bana af lögreglumanni. Vísir/AP
Lögreglumaðurinn sem skaut hina 28 ára gömlu Atiönu Jefferson á heimili hennar á laugardagsmorgun hefur sagt upp störfum. Nágranni hennar hafði hringt á lögreglu vegna þess að útidyrahurð húss hennar hafði verið opin um nóttina.

Jefferson var búsett í húsi í bænum Fort Worth í Texasríki ásamt átta ára gömlum frænda sínum. Frændi hennar var á heimilinu þegar Jefferson var skotin til bana, en skotinu var hleypt af aðeins örfáum sekúndum eftir að hann kom auga á hana.

Sjá einnig: Ung kona myrt af lög­reglu­manni á heimili hennar

Lögmaður fjölskyldu Jefferson segir það aðeins gera sársauka fjölskyldunnar verri að lögreglumaðurinn hafi ekki verið handtekinn. Það að hann væri ekki lengur við störf væri það allra minnsta sem lögreglan í Fort Worth gæti gert.

Á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumannsins sést hann kanna svæðið fyrir utan húsið áður en hann sá Jefferson í gegnum svefnherbergisglugga hennar. Hann skipaði henni að setja hendur í loft og skaut hana nánast samstundis.

Samtök lögreglumanna í Fort Worth segja það vera ljóst að mistök áttu sér stað á laugardagsmorgun og slík mistök ættu ekki að gerast. Betsy Price, borgarstjóri Fort Worth, hefur kallað eftir réttlæti og uppgjöri fyrir fjölskyldu Jefferson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×