Innlent

Hafa rannsakað þrjátíu og eitt lyfjatengt dauðsfall á árinu: „Alltof algengt hjá fólki milli tvítugs og þrítugs“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Grunur leikur á að níu einstaklingar undir þrjátíu ára aldri hafi látist á þessu ári af völdum lyfjaeitrunar. Sá yngsti var tvítugur. Embætti landlæknis hefur rannsakað þrjátíu og eitt lyfjatengt dauðsfall á árinu.

Þrjátíu og níu manns dóu vegna lyfjaeitrunar í fyrra, fleiri en nokkru sinni fyrr á einu ári. Embætti landlæknis hefur því fylgst grannt með þróuninni í ár. 

„Við erum að fylgjast náið með þessu núna og fram í ágúst höfum við haft þrjátíu og eitt andlát til skoðunar,“ segir Ólafur B. Einarsson, yfirmaður lyfjateymis embættis landlæknis. Dánarmeinaskrá eigi þó eftir að staðfesta að lyfin hafi valdið andlátunum.

„Það eru níu af þessum þrjátíu og einum sem eru undir þrítugu,“ segir Ólafur. Sá yngsti hafi verið tvítugur. 

„Því miður er þessi aldur frá tvítugu og upp í þrítugt alltof algengt.“ 

Flestir létu lífið vegna morfínskyldra lyfja eða ópíóíða en það eru sterk verkjalyf, til dæmis Oxycontin. „Það er algengast að þetta sé einhvers konar kokteill hjá fólkinu. Það voru sautján af þessum þrjátíu og eina sem greindus með þrjú eða fleiri lyf og oft í bland við önnur efni. Við sjáum þessa yngri, að þeir hafa verið að taka ópíóíða, eins róandi lyf í bland við ólögleg efni. En þeir sem eru eldri, þá er meira ráðandi áfengi í bland við þunglyndislyf og róandi lyf,“ segir Ólafur og bætir við það geti verið stórhættulegt að blanda lyfjum. 

Þá segir Ólafur að í fæstum málunum hafi fólkið fengið ópíóíðunum ávísað. „Það fær þetta með einhverjum örðum leiðum.“


Tengdar fréttir

Aldrei fleiri lyfjatengd andlát

Þrjátíu og níu manns dóu vegna lyfjaeitrunar í fyrra, fleiri en nokkru sinni fyrr á einu ári. Flestir létu lífið vegna morfínskyldra lyfja og eru vísbendingar um að meira sé flutt ólöglega til landsins nú en áður. Þróunin er stórhættuleg að mati lyfjateymis embættis landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×