Erlent

Grunaður um að hafa haldið fjöl­skyldunni fanginni á bónda­býlinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bóndabýlið þar sem fjölskyldan fannst.
Bóndabýlið þar sem fjölskyldan fannst. epa/Wilbert Bijzitter
58 ára gamall maður hefur verið handtekinn í Hollandi, grunaður um að hafa haldið hollenskri fjölskyldu fanginni á afskekktu bóndabýli í allt að því áratug að því er talið er.

Á vef BBC segir að maðurinn, Josef B, sé frá Austurríki. Hann var handtekinn í gær, sama dag og fjölskyldan fannst, fyrir að neita að hlýða fyrirmælum lögreglu þegar hún var við leit á bóndabýlinu.

Mun hann koma fyrir dómara á morgun. Maðurinn leigir bóndabýlið en óvíst er hvaða tengsl hann hefur við fjölskylduna.

Í tilkynningu frá hollensku lögreglunni í dag sagði að hún hefði fundið sex manns í litlu rými á bóndabýlinu. Ekki var um kjallarann að ræða, eins og sagt var frá í fyrstu, en rýminu var hægt að læsa. Þá hefur lögreglan ekki staðfest fregnir þess efnis að fjölskyldan væri á býlinu að bíða eftir heimsendi.

„Það er óljóst hvort þau hafi verið þarna af fúsum og frjálsum vilja. Þau gætu hafa verið þarna í níu ár. Þau segjast vera fjölskylda, faðir og fimm börn,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar.

Börnin eru uppkomin, á aldrinum 18 til 25 ára. Ekkert þeirra er á skrá hjá yfirvöldum og heldur ekki maðurinn sem þau segja vera föður sinn.

Lögreglan fann fólkið í kjölfar þess að einn fjölskyldumeðlimur, 25 ára maður sem heitir Jan, fór á bar í smábænum Ruinerwold, í nágrenni bóndabýlisins, og pantaði sér bjór.

Hann ræddi við bareigandann, sagðist hafa flúið og að hann þyrfti aðstoð. Eigandinn kallaði þá til lögreglu sem fór á bóndabýlið og fann systkini Jan og fjölskylduföðurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×