Erlent

Rændu bæjarstjóranum og drógu hann eftir götunni

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Las Margaritas í Chiapas-héraði Mexíkó.
Frá Las Margaritas í Chiapas-héraði Mexíkó. Facebook/LasMargaritas Chiapas
Ellefu voru handteknir í mexíkóska bænum Las Margaritas eftir að hafa rænt bæjarstjóranum Jorge Escandon Hernandez, bundið hann aftan í bifreið og dregið hann eftir götum bæjarins. Independent greinir frá.

Hinir handteknu eru sagði koma úr hópi ósáttra bænda frá nágrannabæ Las Margaritas, Santa Rita Invernadero sem eru ósáttir við að Hernandez hafi ekki staðið við gefin kosningaloforð. Segja mótmælendur að Hernandez hafi ekki staðið við orð sín um að laga vegi milli bæjanna og að tryggja aðgengi að rafmagni og drykkjarvatni.

Hernandez var handsamaður af hópi mótmælenda vopnuðum kylfum og grjóti. Bundu þeir bæjarstjórann því næst við pallbíl og keyrðu af stað með hann í eftirdragi. Eftir að hafa verið bjargað af lögreglu flutti hann yfirlýsingu þar sem hann sagðist líta atburði dagsins alvarlegum augum og sakaði áhrifamenn í nágrannabænum Santa Rita Invernadero um að standa að baki árásinni.

Þá sagði Hernandez að honum yrði ekki ógnað með þessum hætti og kvaðst ætla að sækja þá ellefu sem handteknir voru til saka og kæra þá fyrir mannrán og morðtilraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×