Innlent

Segir greinargerð ríkislögmanns grimma

Sylvía Hall skrifar
Hanna Katrín Friðriksson.
Hanna Katrín Friðriksson. Vísir/Vilhelm
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir þá stöðu sem er komin upp í máli sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum vera eins og kjaftshögg fyrir aðila málsins. Hún tekur undir orð Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, að það sé óásættanlegt að fólk þyrfti að leita ítrekað réttar síns í dómsölum yfir svo langan tíma.

Hanna Katrín og Rósa Björk voru gestir Heimis Más Péturssonar í þjóðmálaþættinum Víglínan í dag þar sem þau ræddu stöðu mála í Guðmundar- og Gerfinnsmálinu.

„Mér finnst það óumdeilanlegt að það hefði verið hægt að gera betur þarna og verið hægt að gera kröfu til stjórnvalda að gera þetta betur. Það kom fram í máli Ragnars að það voru aðrar upphæðir uppi á borðinu, ekki sú sem boðin var sem endanleg ítrasta krafa, það var verið að upphæðir sem hefðu getað lent málinu hefði það verið tekið áfram,“ segir Hanna Katrín.

Hún segir greinargerð ríkislögmanns í málinu vera grimma. Það sé ekki hægt að líta svo á að ríkislögmaður sé einn ábyrgur fyrir greinargerðinni þar sem hann er ekki sjálfstæð stofnun. Ríkisstjórnin beri einnig ábyrgð.

Sjá einnig: Segir ríkið hafna nútímavísindum til þess að „fara sem verst með sakborningana“

„Það er greinargerðin sem er málsvörn ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það er hún sem segir allt sem segja þarf um afstöðuna. Ég vona að henni verði breytt en það er þannig, þetta er málsvörn ríkisstjórnarinnar í þessu máli,“ segir Hanna Katrín og ítrekar ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

„Ef að menn ætla að halda því fram að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi ekki séð þessa greinargerð, þá bara koma þeir fram og segja það. Það hefur enginn sagt það.“

Rósa Björk útilokar ekki að stjórnvöld grípi inn í með þeim hætti sem mögulegt er og að hennar sögn er það hálfnauðsynlegt. Greinargerðin sé ekki í samræmi við fyrri ummæli forsætisráðherra.

„Ég held að það þurfi að stíga inn þarna. Greinargerðin og hluti af greinargerðinni og sú agressífa lína og tónn sem þar er gefinn er í engu samræmi afsökunarbeiðni forsætisráðherra og þann sáttavilja sem hún sýndi með því að koma á fót sáttanefnd,“ segir Rósa Björk.


Tengdar fréttir

Svimaði við lestur greinargerðar ríkislögmanns

Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar segir ríkið ekki fylgja reglum hins siðaða samfélags í málsvörn sinni gagnvart kröfum Guðjóns um bætur vegna ólöglegrar frelsissviptingar hans í Geirfinnsmálinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×