Íslenski boltinn

Helgi: Hefði verið sanngjarnt ef við hefðum jafnað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi var ósáttur við fyrri hálfleikinn hjá sínum mönnum gegn Breiðabliki.
Helgi var ósáttur við fyrri hálfleikinn hjá sínum mönnum gegn Breiðabliki. vísir/andri marinó
„Ég var ekki sáttur með fyrri hálfleikinn þar sem við vorum langt frá okkar besta. En það var allt annað að sjá til liðsins í seinni hálfleik. Menn voru tilbúnir að berjast fyrir merki félagsins. Við hefðum hæglega getað jafnað. Við fengum 2-3 dauðafæri til að jafna í 4-4 sem hefði verið frábært og ekki ósanngjarnt miðað við seinni hálfleikinn en sá fyrri varð okkur að falli,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, í samtali við Vísi eftir 4-3 tap hans manna fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld.

Strákarnir hans Helga voru heillum horfnir í fyrri hálfleik og voru 3-0 undir að honum loknum. Ekki tók betra við í upphafi seinni hálfleiks þegar Alfons Sampsted kom Breiðabliki í 4-0.

„Við vorum of langt frá mönnunum og gáfum þeim tíma. Við ætluðum að koma framarlega á þá en náðum því ekki. Við gerðum tvöfalda skiptingu í hálfleik, settum tvo menn fram og pressuðum á vörnina þeirra. Það tókst en því miður aðeins of seint. Þó ekki því við fengum færi til að jafna. Þetta er hundfúlt,“ sagði Helgi.

En hefði hann átt að breyta til fyrr í leiknum?

„Það er alltaf ef og hefði. Ég get lofað þér því að ég fer heim hundfúll með sjálfan mig. Maður rýnir í það sem maður hefði getað gert. Það er eins og með leikmenn. Stundum geta þjálfararnir gert betur,“ sagði Helgi.

„En ég var mjög sáttur að sjá hversu mikið leikmennirnir lögðu í þetta. Það hefði verið sanngjarnt ef við hefðum jafnað þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×