Skoðun

Tíminn drepinn

Óttar Guðmundsson skrifar
Ég las á dögunum viðtal við konu sem tekið var á 100 ára afmælisdaginn. Blaðamaðurinn spurði hverju hún vildi þakka þetta langlífi. Hún sagðist alltaf hafa haft nóg að gera. Þetta kemur heim og saman við orð gömlu konunnar í Brekkukotsannál, „iðjuleysi er upphaf alls ills og þar næst ferðalög“.

Nútímafólk hefur ótrúlega mikinn tíma aflögu. Vinnutíminn hefur styst og tölvur og vélar létta fólki lífið. Menn eru sífellt að leita sér leiða til að drepa tímann með einhverri afþreyingu. Það er næsta algengt að tölvuleikjaáhugamenn sitji fyrir framan skjáinn 12-16 klst. í beit. Margir liggja yfir myndböndum og alls kyns skilaboðum á netinu löngum stundum. Afþreyingariðnaðurinn er öflugur enda er markaðurinn fyrir skemmtiefni ótakmarkaður. Fólk hefur aldrei ferðast meira, húsbílar og heitir pottar seljast eins og heitar lummur á útihátíð. Síminn með alla sína afþreyingu er besti vinur barna og unglinga.

En þrátt fyrir alla þessa skemmtun er algengasta kvörtun fólks hjá geðlæknum og sálfræðingum tilgangsleysi tilverunnar og almennur leiði. Fólk hefur meiri tíma til að velta fyrir sér eigin tilvistarvandamálum og reynir að láta engan harm framhjá sér fara.

Aldargamla konan lýsti því hvernig henni féll aldrei verk úr hendi. Hún bætti því við að sér hefði aldrei leiðst. Enginn veit hvort langar setur í tölvunni eru jafngildi venjulegrar vinnu og einhvern tíma í framtíðinni muni aldargamall tölvuleikja­fíkill þakka leikjunum langlífi sitt. Vandamálið er að þegar menn verða of uppteknir af því að drepa tímann er hætt við því að tíminn drepi þá sjálfa úr leiðindum og tilgangsleysi.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.