Sport

„Sturluðumst af gleði þegar við komumst upp fyrir Serba“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Bragi, Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi.
Ari Bragi, Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi. mynd/stöð 2

Íslenska landsliðið í frjálsum íþróttum kom til landsins í dag eftir frækinn sigur í 3. deild Evrópubikarkeppni landsliða í Skopje í Norður-Makedóníu um helgina.

„Þetta var æðislegt. Okkur langaði svakalega að sjá hvað við gætum gert. Við vorum með ótrúlega mörg silfur á mótinu og í þeim greinum voru Serbarnir alltaf með gull. Þeir gerðu afdríkarík mistök í síðustu greininni þannig að þetta spilaðist upp í hendurnar á okkur,“ sagði spretthlauparinn Ari Bragi Kárason í samtali við Arnar Björnsson í Leifsstöð.

Serbar komu fyrstir í mark í 4x400 metra boðhlaupinu en voru dæmdir úr leik. Íslendingar stukku því upp fyrir þá. Ísland fékk 430 stig í heildina en Serbía 427.

„Það var ótrúleg stund. Við vorum búin að sjá að það var mjótt á munum fyrir síðustu grein en margt þurfti að gerast til að við myndum fara upp fyrir þá á stigum. Við vorum búin að aðskilja okkur frá hinum löndunum,“ sagði Ari Bragi um sigurstundina í gær.

„Svo gerðu þeir mistök. Dómari á vellinum kærði, ekki Íslendingar, og það fór beint í gegn. Svo þegar við sáum það sturluðumst við af gleði því þá vorum við komin upp fyrir þá. Íslenskt landslið hefur aldrei unnið Evrópubikar áður.“

Ari Bragi hefur fulla trú á því að Íslendingar geti haldið sér í 2. deildinni.

„Ekki spurning. Við erum með ofboðslega marga sem voru að keppa á sínu fyrsta móti á erlendri grundu. Næstum því helmingur liðsins hafði aldrei klæðst landsliðsbúningnum áður. En það skilaði gríðarlega flottum árangri og sýndi karakter í þessum aðstæðum,“ sagði Ari Bragi að endingu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.