Innlent

Júní á enn þá vinninginn þrátt fyrir sólina í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sumir nýttu sólina í dag til líkamsræktar.
Sumir nýttu sólina í dag til líkamsræktar. Vísir/vilhelm
Veðrið lék við íbúa höfuðborgarsvæðisins í dag. Hiti fór hæst í 19,9 stig klukkan þrjú síðdegis, sem telst afar hlýtt, en náði þó ekki að slá hitametið á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári, að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Páll Ágúst Þórarinsson veðurfræðingur segir í samtali við Vísi að hiti hafi farið yfir tuttugu stig á höfuðborgarsvæðinu í júní. Það met stendur því enn fyrir árið þó að dagurinn í dag hafi verið afar hlýr.

„Hiti var kominn í sextán gráður strax klukkan tíu í morgun og svo stígur hann upp í 19 um klukkan þrjú og fer eiginlega ekki niður fyrir það fyrr en klukkan átta,“ segir Páll.

Þá segir hann afar góða daga í vændum á höfuðborgarsvæðinu en á morgun má búast við 16-18 stiga hita og 17-19 stigum á laugardag.

„Næstu tveir dagar verða allavega hlýir. Það verður svolítið af sólskini og hlýtt á höfuðborgarsvæðinu, og eitthvað á Suðvestur- og Vesturlandi líka,“ segir Páll.

Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis var á ferðinni í góða veðrinu í höfuðborginni í dag og myndaði borgarbúa í blíðunni. Afraksturinn má sjá hér að neðan.

Flatmagað í sólinni.Vísir/vilhelm
Hundar hafa líklega víða verið viðraðir.Vísir/Vilhelm
Það er fátt huggulegra en að leggjast í grasið og vinna í sólbrúnkunni.Vísir/vilhelm
Svaladrykkur á Kaffi París í sólskininu. Kunnuglegt stef.Vísir/Vilhelm
Sólarþyrstir borgarbúar þyrptust á ylströndina í Nauthólsvík í hitanum.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×