Sport

27 ára kastari Englanna fannst látinn í hótelherbergi sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyler Skaggs í leik með Los Angeles Angels 13. júní síðastliðinn.
Tyler Skaggs í leik með Los Angeles Angels 13. júní síðastliðinn. Getty/Mike Carlson
Hafnaboltaheimurinn í Bandaríkjunum er í miklu áfalli eftir hræðilegar fréttir frá Texas þar sem leikmaður í deildinni fannst látinn á hótelherbergi sínu.

Hinn 27 ára gamli Tyler Skaggs var kastari Los Angeles Angels liðsins og var í keppnisferðalagi með liði sínu þegar andlátið bar að.

„Tyler Skaggs er og verður alltaf hluti af Englafjölskyldunni,“ sagði í Twitter-færslu hjá Los Angeles Angels.



Lögreglan var kölluð til þegar meðvitundarlaus maður fannst í hótelherbergi sínu í Southlake í Texas. Hann var úrskurðar látinn á staðnum. Tyler Skaggs og félagar í liði Englanna voru mættir þangað til að spila við Texas Rangers. Leiknum hefur nú verið frestað.

Talsmaður lögreglunnar segir hana ekki gruna það að Tyler Skaggs hafi svipt sig lífi eða að einhver hafi banað honum.

Tyler Skaggs var nýgiftur (2018) og lífið virtist leika við hann. Í Instagram færslu hans frá 31. desember skrifaði hann undir mynd af sér og eiginkonunni að árið 2018 hafi verið það besta hingað til.





Leikmenn og þjálfarar Los Angeles Angels voru mættir á leikinn á móti Texas Rangers þegar fréttirnar bárust af örlögum Tyler Skaggs. Þeir yfirgáfu svæðið í kjölfarið og leiknum var frestað.

Stuðningsfólk Los Angeles Angels hefur streymt að heimavelli liðsins í Anaheim þar sem settur hefur verið upp minnisvarði um Skaggs. Mörg þeirra hafa minnst hans með því að leggja blóm við aðalhlið vallarins.

Tyler Skaggs er frá Kaliforníu og Los Angeles Angels valdi hann í nýliðavalinu árið 2009. Hann spilaði sinn fyrsta leik í MLB-deildinni árið 2012 en lék með Arizona Diamondbacks tímabilin 2012 og 2013.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×