Innlent

Vilja búa til ísgöng í stað hella sem eru að bráðna í Langjökli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Íshellir sem ferðamenn skoða á vegum Mountaineers of Iceland í Suðurjökli.
Íshellir sem ferðamenn skoða á vegum Mountaineers of Iceland í Suðurjökli. Mynd/Mountaineers of Iceland

„Það verður að bregðast við breytingum, ekki síst þegar ferðamönnum er að fækka, til að hafa eitthvað upp á að bjóða,“ segir Herbert Hauksson hjá Mount­aineers of Iceland, sem vilja fá að gera ísgöng í Suðurjökli í Langjökli.

Í umsókn Mountaineers of Ice­land til Bláskógabyggðar frá í apríl er óskað eftir 50 sinnum 500 metra lóð á Suðurjökli við Skálpanes til að gera manngerð ísgöng. Afgreiðslu málsins var frestað í maí en var aftur tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi í gær þar sem umsóknin var samþykkt.

„Við höfum verið að sýna ferðamönnum náttúrulega íshella í jökulsporðinum. Þeir eru bara að bráðna í burtu,“ segir Herbert sem kveður bráðnunina vera mjög hraða.

Aðspurður hvort ísgöngin verði lík þeim sem eru í vestanverðum Langjökli segir Herbert nýju göngin aðeins vera um eitt hundrað metrar að lengd en ekki um fimm hundruð. „Við verðum í um sjö til átta hundrað metra hæð, það er eiginlega í jökulsporðinum. Við ætlum að reyna að vera í sem þéttustum ís þannig að þetta haldist sem best og ísinn sé glær svo það sé hægt að sjá inn í hann,“ útskýrir Herbert.

Herbert Hauksson, hjá Mountaineers of Iceland.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar veitti í gær leyfi til eins árs fyrir starfsemi á svæðinu. „Verði breyting á aðalskipulagi samþykkt eins og óskað er eftir, yrði skilgreind lóð fyrir íshelli, gerður samningur milli sveitarfélagsins og ríkisins á grundvelli reglna um þjóðlendur, og lóðin auglýst til úthlutunar,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

„Þetta er allt á byrjunarstigi,“ undirstrikar Herbert. „Þetta er kapphlaup við tímann því hinir hellarnir eru að hverfa,“ segir Herbert sem kveður jöklaskoðun mjög vinsæla meðal ferðamanna. „Jöklarnir eru náttúrlega á hverfanda hveli í hlýnandi loftslagi og mönnum finnst þeir vera mjög sérstakir. Þeir vilja komast inn í jökulinn eða inn í einhvers konar göng,“ segir Herbert.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.