Innlent

Dansandi öku­maður brást illa við at­huga­semdum lög­reglu

Eiður Þór Árnason skrifar
Ökumaðurinn mun að vonum fá aðra útrás fyrir danssveifluþörf sína.
Ökumaðurinn mun að vonum fá aðra útrás fyrir danssveifluþörf sína. Vísir/Jóhann K.
Rásandi aksturslag ökumanns á leið til Keflavíkurflugvallar vakti athygli lögreglumanna á Suðurnesjum í fyrrakvöld, er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni.

Ökumaðurinn sem ók í átt að Leifsstöð sást sveiflandi höndunum ákaft jafnt sem annarri hendi var stungið út um bílglugga. Þegar lögreglan óskaði eftir skýringum á athæfinu kvaðst hann hafa verið að dansa við tónlist á meðan á akstri stóð.

Dansandi ökumaðurinn brást illa við athugasemdum lögreglu um ógætilegan akstur og reyndist erfitt að ræða við hann. Að lokum náðist að koma honum í skilning um að hann ætti ávallt að hafa báðar hendur á stýri við akstur. Annað gæti skapað mikla hættu í umferðinni.

Að endingu ók ökumaðurinn prúður á brott með báðar hendur á stýri, ef marka má frásögn lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×