Sport

Guðlaug Edda keppir við þær allra bestu í heiminum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. Mynd/Fésbókarsíða Edda

Íslenska þríþrautakonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir í sprettþraut í World Triathlon Series um helgina.

Keppnin fer fram í Montreal í Kanada en WTS (World Triathlon Series) er stærsta þríþrautarmótasería í heimi sem keppt er í Ólympískri þríþraut en þar keppa þær allra bestu í heiminum.

Guðlaug Edda hefur sett sér það markmið að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári en engin íslensk kona hefur keppt áður í þríþraut á leikunum.

Guðlaug Edda stóð sig frábærlega á EM í Ólympíuþraut í lok maí en hún náði þar fjórtánda sæti í keppninni.

Þetta er í annað sinn sem Guðlaug Edda keppir í þessari WTS-mótaseríu en fyrsta skiptið endaði ekki vel. Það var í Leeds í fyrra sem endaði með slysi og heilahristing. Vonandi tekst okkar konu að klára þrautina á morgun.

Aðstæður verða erfiðar því það er 30 stiga hiti í Montreal og mikill raki. Veðurspáin fyrir helgina er svipuð. Á laugardag er spáð rigningu en eins og á Íslandi þá er veðrið og veðurspáin fljót að breytast.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.