Sport

Einn dáðasti íþróttamaður Boston skotinn á skemmtistað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ortiz varð þrisvar sinnum meistari með Boston Red Sox.
Ortiz varð þrisvar sinnum meistari með Boston Red Sox. vísir/getty
David Ortiz, fyrrverandi leikmaður bandaríska hafnaboltaliðsins Boston Red Sox, er á batavegi eftir að hafa verið skotinn á skemmtistað í Dóminíska lýðveldinu í gær.

Samkvæmt fjölmiðlafulltrúa Ortiz er hann ekki lengur í lífshættu og að ná sér eftir sex klukkutíma aðgerð sem hann gekkst undir í gær. Fjarlægja þurfti hluta af ristli Ortiz og gallblöðruna. Þá skemmdist lifrin í honum.

Ortiz, sem er jafnan kallaður Big Papi, var skotinn í bakið á skemmtistað í Santo Domingo í gærkvöldi. Gestir á skemmtistaðnum yfirbuguðu árásarmanninn, hinn 25 ára Eddy Feliz Garcia, og tóku í lurginn á honum. Hann var færður í gæsluvarðhald eftir meðhöndlun á sjúkrahúsi.

Tveir aðrir særðust í árásinni en eru á batavegi. Annar þeirra er sjónvarpsmaðurinn Jhoel Lopez sem var skotinn í fótinn. 

Ortiz er frá Dómíníska lýðveldinu og býr þar hluta af árinu. Hann ku vera fastagestur á skemmtistaðnum þar sem árásin átti sér stað.

Ortiz lék í 14 tímabil með Boston Red Sox og varð þrívegis meistari með liðinu. Hann er í gríðarlega miklum metum hjá stuðningsmönnum Boston Red Sox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×