Sport

Hóta að senda eigin landsliðsmenn í fangelsi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Robbie Farah er einn þeirra sem fer fyrir mótmælunum
Robbie Farah er einn þeirra sem fer fyrir mótmælunum vísir/getty
Rúgbýsamband Líbanon hefur hótað því að henda landsliðsmönnum sínum í fangelsi ef þeir halda úti áætluðum mótmælum.

Líbanon mætir Fídjí á laugardaginn. Þeir landsliðsmenn Líbanon sem eru búsettir í Ástralíu og spila reglulega þar í landi ætla að líma yfir merki líbanska rúgbýsambandsins til þess að mótmæla stjórnarháttum sambandsins.

Á meðal þeirra sem standa fyrir mótmælunum eru stærstu nöfn líbanska liðsins, Robbie Farah, Josh Mansour og Mitch Moses.

Í tilkynningu frá líbanska sambandinu segir meðal annars að „það er glæpur að sýna þjóðartákni Líbanon óvirðingu“ og að embætti saksóknara í landinu hafi verið látið vita af fyrirhuguðum mótmælum.

Leikmennirnir eru nú að íhuga að svara þessum hótunum með því að mæta ekki í leikinn.

„Ég veit ekki hvaða heimild þeir hafa til þess að standa í svona hótunum, en ef þetta er staðan þá munum við íhuga alvarlega að mæta ekki til leiks,“ sagði Farah við ástralska blaðið Sydney Morning Herald.

„Við sem leikmannahópur erum að heimta breytingar. Vonandi getum við komið einhverju af stað. Við viljum ekki fara í fangelsi, svo við munum bara ekki spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×