Lífið

Ísland skýst upp um tvö sæti að næturlagi

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Matthías og Klemens í einu af fjölmörgum viðtölum sem sveitin hefur veitt á meðan dvölinni í Tel Aviv stendur.
Matthías og Klemens í einu af fjölmörgum viðtölum sem sveitin hefur veitt á meðan dvölinni í Tel Aviv stendur. Rúnar Freyr
Hatari með lag sitt Hatrið mun sigra situr í sjötta sæti veðbanka að morgni úrslitadags Eurovision í Tel Aviv. Lagið er komið á kunnuglegan stað á ný í sjötta sæti þar sem það sat í um mánuð fram að brottför til Ísrael.

Lagið hefur síðan rokkað aðeins en aldrei farið neðar en í tíunda sæti. Í gær sat lagið í áttunda sæti en skaust svo upp um tvö sæti í nótt.

Hvort veðbankar hafi eitthvað fyrir sér varðandi útkomuna í kvöld á eftir að koma í ljós. Hollendingurinn Duncan Laurence með lag sitt Arcade situr sem fastast í efsta sæti hjá veðbönkum en 47% líkur eru taldar á sigri hans.

Luca Hänni með lagið She got me fyrir Sviss hefur skotist upp í þriðja sæti. Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari Hatara, er mikill aðdáandi lagsins.

„Ég táraðist yfir svissneska atriðinu. Það hitti einhvern streng í mér í dag sem er í senn svo óræður en samt svo sammannlegur að maður getur ekki annað en tárast.“

Úrslit Eurovision hefjast í kvöld klukkan 19 að íslenskum tíma. Íslenska lagið verður sautjánda á svið en fylgst verður grannt með gangi mála í beinni textalýsingu úr blaðamannahöllinni í Tel Aviv.

Fylgjast má með veðbönkum hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×