Sport

Nýliðaval NFL-deildarinnar fer fram í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Augu flestra beinast að Kyler Murray í kvöld.
Augu flestra beinast að Kyler Murray í kvöld. Vísir/Getty
Nýliðaval bandarísku NFL-deildarinnar fer fram í kvöld en viðburðarins er beðið með mikilli eftirvæntingu meðal áhugamanna og stuðningsmanna liða deildarinnar ár hvert.

Í þetta sinn fer nýliðavalið fram í Nashville í Tennessee. Það fer þannig fram að það lið sem var með verstan árangur síðasta tímabils fær að velja fyrst - það er Arizona Cardinals í ár. Besta liðið, Super Bowl-meistararnir í New England Patriots, velja því síðast.

Aðeins fyrsta umferð nýliðavalsins fer fram í kvöld en alls telur það sjö umferðir og lýkur því á laugardaginn.

Sérfræðingar vestanhafs reikna langflestir með því að Arizona Cardinals velji leikstjórnandann Kyler Murray úr Oklahoma-háskólanum. Murray var valinn besti leikmaður háskólaboltans síðasta tímabil og vann hina svokallaða Heisman-bikar.

Það myndi koma mjög á óvart ef að Cardinals myndi velja einhvern annan leikmann en það gæti einnig komið til greina að skipta á fyrsta valréttinum við annað félag.

Arizona valdi leikstjórnandann Josh Rosen í fyrstu umferð nýliðavalsins í fyrra en Arizona átti þá tíunda valrétt. Rosen þótti ekki standa undir væntingum. Ef Murray verður valinn má reikna með því að Rosen fái að leita á önnur mið - aðeins ári eftir að hann kom inn í deildina.

Bein útsending frá nýliðavalinu verður á Stöð 2 Sport og hefst útsending á miðnætti í kvöld.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×