Innlent

Hóteleigendur hóti starfsfólki og reyni á verkfallslöggjöf

Sighvatur Jónsson skrifar
Efling hefur fengið margar ábendingar frá félagsmönnum um verkfallsbrot vinnuveitenda. Félagsfulltrúi hjá Eflingu segir dæmi um að hótelstarfsfólki hafi verið hótað að vinnustaður þeirra verði gjaldþrota ef til verkfalls kemur.

Valgerður Árnadóttir, félagsfulltrúi hjá Eflingu, segir að starfsmenn stórrar hótelkeðju hafa kvartað yfir því að verið sé að breyta starfstitlum fólks svo það geti unnið í verkfalli.

Eflingu hafa einnig borist ábendingar frá félagsmönnum sínum um að hótel ætli að kaupa þjónustu frá hreinlætisfyrirtækjum til að sinna þrifum á meðan á verkfalli stendur.

Valgerður segir að á einu hóteli hafi starfsfólki verið gert að samþykkja það að vinna í verkfalli.

„Með því fylgdu þau skilaboð að ef þau myndu ekki vinna myndi fyrirtækið fara til fjandans og þau missa vinnuna,“ segir Valgerður.

Aðspurð hvort verið sé að hóta starfsfólki svarar Valgerður: „Ég myndi segja að þetta væri hótun þegar starfsfólki er sagt að ef það muni taka þátt í verkfalli þá munu þau verða gjaldþrota og allir missa vinnuna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×