Erlent

Grunaður um að nota Insta­gram til að tæla stúlku til sín og mis­nota hana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Richard Brown neitar ásökununum og segist aðeins hafa verið vinur stúlkunnar og leyft henni að dvelja hjá sér þar sem hana vantaði samastað.
Richard Brown neitar ásökununum og segist aðeins hafa verið vinur stúlkunnar og leyft henni að dvelja hjá sér þar sem hana vantaði samastað. orange county
Richard Brown, 25 ára gamall maður sem búsettur er í Flórída, hefur verið handtekinn grunaður um að hafa notað samfélagsmiðilinn Instagram til þess að tæla 17 ára unglingsstúlku heim til sín þar sem hann misnotaði hana síðan kynferðislega.

Í frétt Washington Post kemur fram að maðurinn hafi vingast við stúlkuna í gegnum Instagram þar sem hann þóttist vera 19 ára samfélagsmiðlastjarna.

Sagt er að stúlkan hafi tjáð lögreglu að hún hafi flúið að heiman eftir að hafa spjallað við Brown á Instagram um þriggja mánaða skeið. Hann hafi þá ákveðið að bjóða henni til sín til Flórída.

Segir lögreglan að Brown hafi borgað 800 dollara Uber-ferð fyrir stúlkuna frá Texas og í gegnum Louisiana á leið heim til hans í Flórída.

Stúlkan sagði Brown að hún vildi fara heim þegar hún komst að því að hann hefði logið að henni en þá sagði hann við hana að hún skuldaði honum fyrir Uber-ferðina.

Hún hefur svo lýst því fyrir lögreglu hvernig Brown beitti hana kynferðislegu ofbeldi í þrjá dag áður en henni tókst að flýja á meðan hann var sofandi. Þá hringdi hún í móður sína og neyðarlínuna.

Brown neitar því að hafa haft beitt stúlkuna kynferðisofbeldi, segir að þau séu aðeins vinir og að hann hafi haldið að hún væri 18 ára. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×