Sport

Úr sjónvarpinu og aftur í fótboltabúninginn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kúrekagoðsögnin Jason Witten snýr aftur.
Kúrekagoðsögnin Jason Witten snýr aftur. vísir/getty

Innherjagoðsögnin Jason Witten hefur ákveðið að draga fram skóna ári eftir að hann lagði þá á hilluna. Hann mun að sjálfsögðu spila áfram með Dallas Cowboys.

Hinn 36 ára gamli Witten hætti eftir glæstan feril og var í teymi ESPN sem sá um mánudagsleikina í NFL-deildinni á síðasta tímabili.

Eitthvað leiddist honum í sjónvarpinu því hann er búinn að semja við Kúrekana. Hann fær að lágmarki 420 milljónir króna fyrir næsta tímabil og ef vel gengur gæti hann fengið 600 milljónir króna í veskið.

„Eldurinn logar enn of glatt inn í mér. Þetta lið hefur allt til að bera og ég vil hjálpa því. Ég get ekki beðið eftir því að taka á því á nýjan leik,“ sagði Witten sem verður 37 ára í maí.

Á fimmtán ára ferli var Witten ellefu sinnum valinn í stjörnuleik NFL-deildarinnar. Hann greip 1.152 sendingar sem er það fjórða besta í sögu deildarinnar og félagsmet hjá Cowboys. Hann á einnig fjölda annarra meta hjá félaginu.

Margir gleðjast yfir því að Witten sé að koma aftur þar sem hann sé bestur. Hann þótti nefnilega ekki standa sig sem skildi í sjónvarpinu.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.