Innlent

Fáir tekið afstöðu gegn líffæragjöf

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Innan við eitt prósent landsmanna hefur tekið afstöðu gegn líffæragjöf eftir andlát. Einungis um fjögur prósent látinna koma til greina sem líffæragjafar að sögn yfirlæknis á lyflækningadeild Landspítalans.Um áramótin höfðu hátt í 44 þúsund manns tekið afstöðu til líffæragjafar frá því að opnað var fyrir möguleikann í október 2014. Þar af vilja nær allir, eða 41 þúsund, gefa líffæri við andlát. Um áramót tóku lög um brottnám líffæra breytingum og verða nú allir yfir átján ára aldri sjálfkrafa líffæragjafar eftir andlát ef nánustu aðstandendur hafna því ekki og vilji til annars hefur ekki verið skráður.Í nóvember var farið að kynna lagabreytinguna og tóku þá ríflega ellefu hundruð afstöðu. Þar af sögðust um eitt hundrað vilja undanskilja ákveðin líffæri eða tóku alfarið fyrir líffæragjöf. Í desember hækkaði hlutfallið töluvert. Af 1400 sem tóku afstöðu höfnuðu hátt í sex hundruð líffæragjöf alfarið eða að einhverju leyti.Tölur janúarmánaðar hafa ekki verið teknar saman en samkvæmt upplýsingum frá embætti Landlæknis hefur hlutfall þeirra sem eru andvígir líffæragjöf haldist svipað eftir breytingu og er enn innan við eitt prósent.Yfirlæknir á Landspítalanum segir líffæragjöfum hafa fjölgað á síðustu árum og bindur vonir við að lagabreytingin viðhaldi þróuninni.„Það voru í kringum þrjár til fjórar líffæragjafir á ári, allar götur þar til fyrir fjórum árum þegar þær urðu skyndilega tólf. Ég hygg að meðaltalið á síðustu fjórum árum hafi verið í kringum níu á ári,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir lyflækninga á Landspítalanum.Einungis fáir koma til greina sem líffæragjafar við andlát.„Það eru eingöngu einstaklingar sem látast heiladauða. Eru þannig á gjörgæsludeild, í öndunarvél og svo framvegis þannig að líffærin varðveitast og það sé hægt að nýta þau.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.