Sport

McVay tekur tap Rams á sig: „Gaf okkur ekki tækifæri á því að vinna“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
McVay var ekki sáttur með stjórnun sína á leiknum í nótt
McVay var ekki sáttur með stjórnun sína á leiknum í nótt vísir/getty
Sean McVay hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína sem þjálfari Los Angeles Rams á nýliðnu tímabili í NFL deildinni, en hann var óvæginn á gagnrýnina á sjálfan sig eftir tap í leiknum um Ofurskálina í nótt.

McVay varð yngsti þjálfarinn til þess að stýra liði í leikinn um Ofurskálina, úrslitaleik NFL deildarinnar, þegar hann kom Rams þangað með sigri á New Orleans Saints.

Hann mætti hins vegar þrautreyndum þjálfara í Bill Belichick í nótt þegar Rams mætti New England Patriots í leiknum um Ofurskálina.

„Ég hafði undir í þjálfarabaráttunni. Það er engin önnur leið að segja það,“ sagði McVay.





„Ég gaf okkur aldrei tækifæri á því að komast í taktinn í sókninni. Úrslitin eru að miklu leiti vegna þess sem þeir gerðu, en kerfin sem ég valdi eru hluti af því.“

„Ég er ekki ánægður með hvernig ég túlkaði flæði leiksins og brást við því sem gerðist. Þeir gerðu vel, ég gerði ekki nógu mikið fyrir okkur.“

Patriots vann leikinn 13-3 í leik þar sem varnarleikurinn var í aðalhlutverki. Lítið var skorað en leikurinn var æsispennandi allt til loka.

„Ég gaf okkur ekki tækifæri á því að vinna og ég veit ekki hvernig ég mun nokkurn tíma geta jafnað mig á því,“ sagði Sean McVay.

NFL

Tengdar fréttir

Tom Brady tók við bikarnum með stelpuna sína í fanginu

Vivian Lake, sex ára dóttir Tom Brady, stal senuninni í verðlaunaafhendingunni í nótt þegar New England Patriots tryggði sér sinn sjötta meistaratitil á sautján árum eftir sigur í Super Bowl í Atlanta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×