Lífið

Stríðs­menn aug­lýsa eftir leik­mönnum á rusla­tunnum í Skot­landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Knattspyrnufélagið segist hafa auglýst eftir leikmönnum með þessum hætti í sjö löndum.
Knattspyrnufélagið segist hafa auglýst eftir leikmönnum með þessum hætti í sjö löndum. Mynd/Stríðsmenn
Auglýsingar frá íslenska knattspyrnufélaginu Stríðsmönnum sem hafa sést á víð og dreif í skosku borgunum Edinborg og Glasgow hafa vakið þó nokkra athygli þar í landi.

Á auglýsingaplöggunum óskar félagið eftir leikmönnum til að spila með liðinu í Reykjavík og fullyrðir að minnst tvö þúsund bresk pund, eða sem nemur 320 þúsund íslenskum króna, standi mönnum til boða fyrir að vinna og spila með félaginu á Íslandi sem leikur í fjórðu deild hér á landi.

Fjallað hefur verið um auglýsingarnar í skoskum vefmiðlum og myndir birtar af auglýsingunum á ruslatunnum víða um borg. Þar er fullyrt að auglýsingarnar hafi jafnframt sést í fleiri breskum borgum.

Auglýsingarnar vísa á heimasíðu félagsins þar sem áhugasömum er gert ljóst að félagið sjálft borgi ekki laun fyrir spilamennskuna en að það muni tryggja leikmönnum launuð störf.

Á vefsíðu félagsins er leikmannahópur þess sagður vera fjölþjóðlegur og að hann samanstandi úr leikmönnum af þrettán mismunandi þjóðernum. Vonast félagið til þess að komast upp í þriðju deild undir lok sumars á næsta ári.

Þar kemur jafnframt fram að félagið hafi dreift auglýsingum í Bretlandi, Búlgaríu, Póllandi, Rúmeníu, Króatíu, Belgíu og Frakklandi. Viðbrögðin við þeim eru sögð vera framar vonum og hefur félagið boðað prufur eftir áramót.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.