Erlent

Ísraelskar sprengjur féllu við almenningsgarð í Gaza

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Palestínumenn reyna að bjarga særðum á vettvangi árásanna í gær
Palestínumenn reyna að bjarga særðum á vettvangi árásanna í gær Vísir/Getty
Að minnsta kosti tveir unglingspiltar, 15 og 16 ára gamlir, létu lífið í loftárásum Ísraelsmanna á Gaza svæðið í gærþ. Árásirnar voru þær umfangsmestu sem Ísraelsmenn hafa gert frá því Gaza var að stórum hluta lagt í rúst árið 2014.

Fjórtán særðust í árásunum, þar á meðal börn sem voru að leik í almenningsgarði sem er oftast fullur af fólki um helgar. Ísraelskar þotur vörpuðu sprengjum á torg fyrir framan garðinn.

Maram Humaid, blaðamaður á Gaza ströndinni, segir að sérstaklega margir hafi verið í garðinum vegna góðs veðurs um helgina.

Ísraelski herinn segist hafa látið íbúa í næsta nágrenni við almenningsgarðinn vita að loftárás væri á leiðinni skömmu áður en sprengjurnar féllu.

Hins vegar kemur reglulega fyrir að gert sé símaat þar sem Palestínumönnum er tilkynnt um árásir sem aldrei koma til að fá þá til að rýma byggingar af óþörfu. Það gerir að verkum að ekki er alltaf tekið mark á slíkum tilkynningum þegar þær berast.

Eftir loftárásir Ísraels skutu liðsmenn Hamas nokkrum litlum eldflaugum á loft yfir landamærin en þær hæfðu ekkert. Fyrr um daginn hafði eldflaug frá Hamas hæft bænahús í Ísrael með þeim afleiðingum af fjórir særðust lítillega. Ísraelsk stjórnvöld telja að allt að 90 eldflaugum hafi verið skotið frá Gaza í gær en þær eru óstýrðar og valda yfirleitt litlu sem engu tjóni.

Í gærkvöld var samið um tímabundið vopnahlé fyrir tilstilli stjórnvalda í Egyptalandi. Bæði Hamas og ísraelsk stjórnvöld hafa hins vegar verið vígreif í yfirlýsingum sínum undanfarið og óvíst hvort vopnahléið heldur í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×