Lífið

Hélt ég myndi deyja úr sorg

Elín Albertsdóttir skrifar
Þórunn Erna Clausen tónlistarmaður hefur gengið í gegnum alvarleg áföll í lífinu en er ákveðin í að halda áfram að njóta lífsins enda sé það ekki sjálfgefið.
Þórunn Erna Clausen tónlistarmaður hefur gengið í gegnum alvarleg áföll í lífinu en er ákveðin í að halda áfram að njóta lífsins enda sé það ekki sjálfgefið.
Þórunn Erna Clausen var hætt komin þegar hún fékk blóðtappa við heila 17. júní 2009. Átján mánuðum síðar lést eiginmaður hennar snögglega þegar æðagúlpur við heila sprakk. Þessi átakanlega lífsreynsla hefur kennt Þórunni að lífið er ekki sjálfgefið. Í dag er hún heilbrigð og nýtur lífsins.

Þórunn Erna segir að hún hafi allt í einu fengið ógurlegan svima, líkt og hún væri í hringekju. „Ég lagðist upp í rúm, hringdi í móður mína og sagði henni frá líðan minni. Á meðan ég talaði við hana missti ég málið og tungan fór að vefjast fyrir mér. Um leið fannst mér eins og ég næði ekki andanum, að kokið væri að stíflast, og líkaminn varð máttlaus. Móðir mín og systir komu brunandi til mín og hringdu á sjúkrabíl. Eiginmaður minn, Sigurjón Brink, eða Sjonni, var staddur í öðru herbergi en ég hafði ekki mátt eða getu til að kalla til hans,“ útskýrir Þórunn Erna en blóðtappinn olli bæði lömun og málleysi.

Þegar Þórunn er spurð hvort hún hafi verið undir miklu álagi á þessum tíma, svarar hún því neitandi. „Það var auðvitað nóg að gera en þetta tengdist ekki álagi heldur kom síðar í ljós að ég var með leyndan hjartagalla. Vissulega var búið að vera álag þar sem sonur minn lá á sjúkrahúsi vikuna áður. Streita var þó ekki ástæðan,“ útskýrir hún. „Læknar voru samt lengi að finna út hvað hefði valdið veikindunum enda er það sjaldgæft að ungar konur fái heilablóðfall,“ bætir Þórunn við en hún var einungis 32 ára þegar þetta var.

Ein af þessum heppnu

„Þegar ég var að tala við móður mína í símann byrjuðu vöðvar í kokinu að lamast þannig að ég fékk mikla köfnunartilfinningu. Ég var við það að kafna en var engu að síður með skýra hugsun. Ég reyndi að muna hvað ég hefði getað haldið andanum lengi niðri í sundi og hvort ég mér tækist það þangað til sjúkrabíllinn kæmi. Ég var komin með krampa vegna súrefnisleysis um það leyti sem sjúkraflutningamenn komu, beið eiginlega bara eftir að allt yrði svart og lífið búið. Þeir gáfu mér strax súrefni, svo losnaði um krampann og fljótlega fór blóð- tappinn af stað. Blóðflæði varð aftur upp í heila og ég var ein af þessum heppnu sem bjargast úr svona aðstæðum,“ segir Þórunn.

„Blóðtappinn var á vondum stað og hefði getað valdið miklum skaða en sem betur fer skildi hann ekkert eftir sig. Ég hafði tvisvar áður fengið viðvörunarblóðtappa án þess að vita það. Þá var líðanin eins og ég hefði mjög slæmt mígrenikast, varð þvoglumælt og jafnvægislaus. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um að það væru viðvörunarblóðföll. Þetta kom fram í sjúkraskýrslunni minni en mér var ekkert sagt frá því. Oft eru viðvörunarheilablóðföll undanfari alvarlegri blóðtappa og ég var ótrúlega heppin að ekki fór verr. Ég tel reyndar að frá því að ég veiktist hafi orðið mikil viðhorfsbreyting hjá heilbrigðisstarfsfólki til ungra kvenna sem veikjast alvarlega.“

Þórunn Erna var gift Sigurjóni Birnk.

Falinn hjartagalli

Þórunn segir að rannsóknir sem gerðar hafi verið þegar hún kom á sjúkrahúsið hafi fyrst og fremst snúið að heilanum þannig að hjartagallinn uppgötvaðist ekki fyrr en síðar. „Þetta gerðist 17. júní sem er óheppilegur dagur til að fá heilablóðfall,“ segir hún.

„Nokkrum árum áður en þetta gerðist var ég í læknisskoðun og lækninum fannst eitthvað óeðlilegt við hjartsláttinn og sendi mig í hjartaskanna. Þar kom hins vegar ekkert í ljós. Eftir að ég lenti í heilablóðfallinu fór ég að leita mér ýmissa upplýsinga um heilablóðfall og í framhaldinu fór ég til Hróðmars Helgasonar hjartalæknis sem sendi mig í ómskoðun á hjarta og vélinda til Sigurpáls Scheving hjartalæknis sem fann út að ég var með gat á milli gátta auk totu við hjartað sem olli aukinni blóðtappamyndun og ég var send í hvelli í hjartaþræðingu þar sem gatinu var lokað. Ég sem hafði talið mig hrausta og heilbrigða,“ segir Þórunn. „Ég hef náð mér að fullu og er nýkomin úr rannsókn sem sýnir að ég er mjög vel á mig komin í dag. Í rauninni er ég meira en 100% heilbrigð og með ótrú- lega gott þol til dæmis í hlaupum og öðrum íþróttum,“ bætir hún við

„Ég reyki hvorki né drekk áfengi og var því ekki í neins konar áhættuhópi,“ segir Þórunn en faðir hennar, Haukur Clausen, lést úr alvarlegu hjartaáfalli.



Sorgin knýr dyra

„Eiginmaður minn lést skyndilega vegna æðagúlps í heila sem er önnur tegund af heilablóð- falli. Það var engin viðvörun hjá honum. Æðagúlpur er eins og hjartagalli, eitthvað sem maður fæðist með. Hann hafði verið í góðu formi og frískur maður.“

Hann varð bráðkvaddur 17. janúar 2011, átján mánuðum upp á dag eftir að ég fékk heilablóðfallið. Við vorum bæði í nokkurs konar afneitun yfir veikindum mínum og það var ekki fyrr en eftir að hann var farinn að ég áttaði mig á hvað ég hafði verið nálægt því að hafa farið líka. Ég hugsa til þess með hryllingi ef börnin mín hefðu misst báða foreldra sína á svona stuttum tíma.

„Á hinn bóginn hugsa ég líka um upplifun mína af því að vera fangi í lömuðum líkama án þess að geta tjáð mig og myndi ekki vilja neinum að lifa þannig lífi og held að hann hefði ekki viljað það. Í dag snýst hugsun mín um að njóta þess að lifa því lífið er ekki sjálfgefið. Ég nýt þess að taka að mér skapandi verkefni og taka þátt í lífsins störfum. Auk þess hef ég reynt að brýna fyrir öðrum að gera það líka. Ég hugsa oft þegar ég leggst upp í rúm á kvöldin með sonum mínum hversu heppin ég er að fá að vera hjá þeim. Þegar svona alvarleg áföll verða hjá fólki, þá reynist jafnvel erfitt að draga andann.



Tónlistin gefur kraft

Þórunn Erna hefur heldur betur haft í nógu að snúast undanfarið. Hún á þrjú lög í Söngvakeppni Sjónvarpsins og tvö þeirra eru komin í úrslit.

„Í öðru laginu samdi ég bæði lag og texta. Meðal annars segir í textanum að við höfum val um að koma vel fram hvert við annað þar sem við vitum aldrei hvað fólk er að ganga í gegnum í lífinu. Flestir kljást við einhvers konar erfiðleika eða áföll í lífinu. Lagið heitir Heim eða Our Choice á ensku og það er Ari Ólafsson sem syngur. Ég samdi auk þess texta og sviðsetti lagið Aldrei gefast upp með Fókushópnum,“ segir Þórunn sem hefur samið mikið af lögum og textum eftir að eiginmaður hennar lést.

Þetta er þriðja árið í röð sem hún á lög í keppninni en alls hefur hún átt texta í ellefu lögum sem flutt hafa verið í keppninni á undanförnum árum. Þórunn Erna er alin upp á tónlistarheimili og lærði á píanó frá fimm ára aldri. Frænka hennar, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, hefur átt glæstan feril á leiksviði og í söng. Þórunn er líka leikaramenntuð og hefur tekið þátt í fjölmörgum uppfærslum á sviði, í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum „Tónlistin hefur alltaf átt stóran sess í lífi mínu og ég samdi mitt fyrsta lag 16 ára,“ segir hún.



Lífið heldur áfram

„Mér þykir mikilvægt að koma því til skila til fólks að jafnvel þótt maður lendi í áfalli, missi náinn ástvin, eða erfiðleikar steðji að, þá heldur lífið áfram. Það er von þó að á einhverju augnabliki sjái maður hana ekki. Ég lifi fyrir syni mína sem eru 9 og 12 ára og eru algjörar hetjur. Það er ótrúlegt hvað börn hafa mikla aðlögunarhæfni. Þeir eru yndislegir strákar. Eitt af því sem ég geri er að ræða við fólk sem nýlega hefur misst maka og fæ margar spurningar. Einnig ræði ég sorgina í hópum, til dæmis í kirkjum,“ segir Þórunn.

„Mér finnst gott að miðla reynslu minni til annarra ef það getur hjálpað fólki í sorginni. Það voru stundir sem komu upp þar sem ég hélt að ég myndi deyja úr sorg. Sársaukinn getur verið það sterkur að maður nær ekki andanum og það slokknar á manni. Maður kemst kannski aldrei yfir sorgina en lærir að lifa með henni og það er satt. Það er himinn og haf milli þess hvernig tilveran blasti við mér þá og hvernig ég lít á lífið í dag. Ég er hamingjusöm og finnst lífið dásamlegt, nýt hverrar stundar og nota tíma minn sem allra best,“ segir Þórunn Erna Clausen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×