Erlent

Bandarísk yfirvöld gætu lagt hald á Wu-Tang-plötu lyfjaforstjóra

Kjartan Kjartansson skrifar
Shkreli hefur verið nefndur lyfjaspaðinn og hataðasti maður Bandaríkjanna.
Shkreli hefur verið nefndur lyfjaspaðinn og hataðasti maður Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Dómari í New York hefur skipað Martin Shkreli, fyrrverandi forstjóra lyfjafyrirtækis sem stórhækkaði verð á lyfjum fyrir alnæmissjúka, að greiða 7,36 milljónir dollara í sekt fyrir að hafa féflett fjárfesta. Hann gæti þurft að láta eftir Picasso-málverk og fræga plötu með rapphljómsveitinni Wu-Tang.

Shkreli varð frægur að endemum þegar hann var forstjóri lyfjafyrirtækisins Turing Pharmaceuticals og hækkaði verð á lyfinu Daraprim um meira en 5.000% árið 2015. Í viðtölum á sínum tíma blygðaðist Shkreli sín ekkert þrátt fyrir harða gagnrýni á verðhækkunina.

Hann var fundinn sekur um fjársvik í ágúst en honum hafði verið gefið að sök að hafa logið að fjárfestum um hvernig tveimur vogunarsjóðum sem hann stjórnaði vegnaði. Einnig var hann dæmdur fyrir markaðsmisnotkun með því að hafa reynt að hafa áhrif á hlutabréfaverð annars lyfjafyrirtækis sem hann stofnaði, að því er segir í frétt Reuters.

Í desember árið 2015 stærði Shkreli sig af því að hafa fest kaup á plötunni „Once Upon a Time in Shaolin“ með Wu-Tang. Hljómsveitin gaf plötuna aðeins út í einu eintaki. Greint var frá því að Shkreli hefði greitt tvær milljónir dollara fyrir plötuna.

Shkreli hefur setið í fangelsi frá því í september. Þá var hann talinn hafa brotið gegn skilmálum samkomulags um lausn hans gegn tryggingu með því að bjóða 5.000 dollara fyrir lokk úr hári Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, á Facebook.


Tengdar fréttir

Martin Shkreli fundinn sekur um fjársvik

Martin Shkreli, fyrrverandi forstjóri lyfjafyrirtækis sem hækkaði verð á alnæmislyfi upp úr öllu valdi, hefur verið dæmdur fyrir fjársvik.

Shkreli í steininn fyrir tíst um Hillary Clinton

Fjárfestirinn sem ávann sér almannahatur þegar hann stórhækkaði verð á alnæmislyfi bauð fylgjendum sínum á Twitter 5.000 dollara ef einhver þeirra gæti fært honum lokk og hársekk af höfði Hillary Clinton.

Shkreli selur Wu-Tang plötuna einstöku á Ebay

Martin Shkreli, fyrrverandi forstjóri lyfjafyrirtækis og maðurinn sem kallaðir hefur verið hataðasti maður internetsins hefur sett eintak sitt af eintakri Wu-Tang plötu til sölu á Ebay.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.