Erlent

Tæplega hálf milljón barna á barmi sveltu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Christophe Boulierac sagði við BBC í gær að börn væru nú þegar að deyja úr hungri í Kasai-héraði.
Christophe Boulierac sagði við BBC í gær að börn væru nú þegar að deyja úr hungri í Kasai-héraði. Vísir/AFP
Um 400.000 börn í Kasai-héraði í Austur-Kongó eru í hættu á að deyja úr hungri. Þetta sagði Christophe Boulierac, talsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, við BBC í gær.

Átök brutust út í Kasai árið 2016 þegar uppreisn var gerð gegn ríkisstjórninni. Héraðið var áður eitt það friðsælasta og best megandi í ríkinu en í desember síðastliðnum lýstu Sameinuðu þjóðirnar því yfir að ástandið þar væri neyðarástand af hæstu gráðu, líkt og í Jemen, Sýrlandi og Írak.

„Það var mikið áfall að sjá hvað er í gangi þarna,“ sagði Boulierac við BBC. Sagðist hann hafa heimsótt þrjá spítala þar sem hann sá börn þjást af vannæringu. Nokkrum dögum eftir heimsóknina voru börnin látin, að sögn Boulierac.

„Við erum ekki að segja að börn gætu dáið úr hungri í Kasai. Við erum að segja að börn séu nú þegar að deyja, þau eru að deyja, þau hafa dáið, í algjörri þögn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×