Lífið samstarf

Djamm, djús og drama

Sögur útgáfa kynnir
Vera Illugadóttir nálgast söguna á skemmtilegan hátt.
Vera Illugadóttir nálgast söguna á skemmtilegan hátt.
Vera Illugadóttir hefur tekið saman alla þjóðhöfðingja Íslands í eina bók, allt frá Hákoni gamla til Guðna Th. Jóhannessonar.  Þjóðhöfðingjar Íslands er ekki þurrt fræðirit, eins og nafnið gæti bent til heldur er bókin full af skemmtilegum sögum.

„Þarna eru margar litríkar persónur, konungar sem voru mikið fyrir djús og djamm og heilmikið drama,“ segir Vera. „Hugmyndin að bókinni kom upp í samráði við útefandann og föður minn, Illuga Jökulsson.  Okkur fannst að það gæti verið gaman að taka saman alla þá sem teljast hafa verið  konungar Íslands. Við skelltum síðan íslensku forsetunum með. Ég hugsa bókina sem létta og frekar stutta yfirferð á langri sögu margra einstaklinga og reyni að hafa hana líka dálítið spennandi,“ segir Vera.  

Bókin fjalli ekki eingöngu um stjórnunarhætti og stríðsbrölt heldur rýnir Vera í persónurnar sjálfar og ýmis fjölskyldumál kóngafólksins. Þá skoðaði hún hvaða áhrif viðkomandi þjóðhöfðingi hafði á Ísland.

 

„Margir konunganna höfðu engan áhuga á þessari eyju þó hún teldist innan þeirra konungdóms, sérstaklega fyrri hluta sögunnar.  Þeir konungar sem settu mestan svip á íslenska sögu voru síðustu danakonungarnir, enda Íslendingar þá farnir að gera sig meira gildandi og hafa sig í frammi,“ segir Vera. Hún hafi haft úr heilmiklum heimildum að moða.

„Þetta var dálítið grúsk og nokkrir mánuðir fóru í skrifin meðfram öðru en þegar maður kemst á flug í grúskinu gengur þetta ágætlega. Danir og Norðmenn hafa haldið vel utan um heimildir um þjóðhöfðingja sína en það er mismikið um hvern að segja. Sumir voru lengi við völd og létu til sín taka eða voru áhugaverðir persónuleikar, aðrir ekki. Kaflarnir eru því mislangir.  Á listanum er ein drottning, Margrét Valdimarsdóttir, sem réði á tímum Kalmarsambandsins og var mjög áhugaverður karakter, gífurlega sterk kona og ákveðin þar sem hún náði að sölsa undir sig völdin yfir þremur Norðurlandanna, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Ef ég ætti að nefna einhvern uppáhalds þá væri það hún.“

Útvarpsþættir Veru, Í ljósi sögunnar, hafa vakið athygli en þar nálgast Vera fólk og viðburði í fortíð og samtíð á áhugaverðan og mannlegan þátt. Hlustendahópurinn er breiður, sem kom henni sjálfri á óvart.

„Ég hélt jafnvel þegar ég byrjaði í útvarpinu að hlustendur yrðu helst eldri borgarar en þetta er fólk á öllum aldri. Það kom mér líka á óvart hvað margir hafa samband við mig vegna þáttanna. Mér finnst ótrúlega gaman að geta tekið þátt í að vekja áhuga almennt á sögu.“

Þjóðhöfðingjar Íslands er þriðja bók Veru. Sögur útgáfa gefa bókina út.

Þessi kynning er unnin í samstarfi við Sögur útgáfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×