Sport

Kúrekarnir skutu niður tíu leikja sigurgöngu New Orleans Saints

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Garrett, þjálfari Dallas liðsins, fagnar Ezekiel Elliott eftir leikinn.
Jason Garrett, þjálfari Dallas liðsins, fagnar Ezekiel Elliott eftir leikinn. Vísir/Getty

Dallas Cowboys er á miklu skriði í NFL-deildinni, svo miklu að heitasta lið deildarinnar náði ekki einu sinni að stöðva þá í fimmtudagsleik ameríska fótboltans í nótt.

Dallas Cowboys vann þá 13-10 sigur á New Orleans Saints og eftir þennan sigur eru 80 prósent líkur(samkvæmt ESPN Stats & Info) á því að Kúrekarnir verði með í úrslitakeppninni í ár.

New Orleans Saints mætti til Dallas með tíu leikja sigurgöngu í farteskinu en Drew Brees og félagar höfðu ekki tapað síðan í fyrstu umferð í september.

Fyrir fimm vikum var útlitið ekki bjart hjá Dallas Cowboys eftir fimm töp í fyrstu átta leikjunum og þá leit út fyrir að liðið væri að missa af úrslitakeppninni. Kúrekarnir fundu hinsvegar taktinn og voru að vinna sinn fjórða leik í röð í nótt.Sóknarleikur Saints liðsins hefur verið nánast óstöðvandi í sigurgöngunni (37,2 stig að meðaltali í leik) en í nótt náði liðið aðeins að komast samtals 176 jarda allan leikinn. Liðið skoraði ekki í fyrri hálfleik og lenti 13-0 undir. Tíu stig í seinni hálfleiknum dugðu ekki til.

Leikstjórnandinn Drew Brees kláraði aðeins 18 af 28 sendingum og kastaði boltanum frá sér rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok þegar Saints liðið var í lofandi sókn.

Dak Prescott, leikstjórnandi Dallas liðsins, kláraði 24 af 28 sendunum sínum og átti eina snertimarkssendingu á hlauparann Ezekiel Elliott. Prescott er að spila fyrir nýjum framtíðarsamningi og hjálpaði því bæði sér og liðinu með frammistöðunni í nótt.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.