Innlent

Tvær fjöldagrafir í Hólavallagarði vegna spænsku veikinnar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Hundrað ár eru síðan spænska veikin náði hámarki sínu í Reykjavík en hátt í fimm hundruð manns létust vegna hennar. Af þeim eru næstum þrjúhundruð grafnir í Hólavallagarði. Sérfræðingur í smitsjúkdómum segir líklegt að svo alvarleg flensa komi aftur upp og mikilvægt að hafa viðbragðsáætlun.

Spænska veikin barst til Íslands í október 1918 og mánuði síðar er fyrsta dauðsfallið vegna hennar skráð í Reykjavík. Veikin breiddist út á skömmum tíma og talið er að allt að 75 prósent reykvíkinga hafi veikst, þá fjölgaði dauðsföllum gífurlega. Þetta kom fram á málþingi sem Borgarsögusafn Reykjavíkur hélt um veikina  í Iðnó í dag. 

Magnús Gottfreðsson prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum segir að dánartíðni há. 

„Af þeim sem veiktust þá voru um tvö og hálft og þrjú prósent sem að létust í borginni. Dánartalan var svipuð í vestrænum löndum en sum staðar var hún allt að 25%,“ segir Magnús. 

 Um þrjúhundruð manns voru grafnir í Hólavallagarði við Suðurgötu vegna veikinnar. Heimir Björn Janusarson umsjónarmaður Hólavallagarðs segir að alls hafi 24 verið grafnir í tveimur fjöldagröfum.

„Fyrsta gröfin var hérna fyrir neðan þar sem 18 manns voru grafnir í einni gröf. Daginn eftir voru svo sex grafnir í annarri fjöldagröf,“ segir Heimir. 

Magnús Gottfreðsson segir líklegt að svo alvarleg inflúensa eða veirutegund komi aftur en hins vegar sé erfitt að spá fyrir um hvenær. Afar mikilvægt sé að hafa góða inniviði og heilbrigðiskerfi ef það gerist. ]
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.