Innlent

Þrýsta gríðarlega fast á að veitt verði fleiri hótelleyfi

Stefán Ó. Jónsson skrifar

Stjórnendur Reykjavíkurborgar vonast til þess að aukin stýring í hóteluppbyggingu verði til þess að færa starfsemina utar í borgina. Formaður skipulags- og samgönguráðs segir að nýja stefnan hafi sætt gagnrýni verktaka, sem vilji auka enn frekar gististarfsemi í miðborginni.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgöngurráðs Reykjavíkurborgar, segir að stefnunni sé ætlað að sporna við fólksfækkun sem orðið hefur í miðborginni á síðustu árum.

„Það er aðallega vegna þess að miðborgin er eina hverfið í borginni þar sem íbúum hefur verið að fækka. Og það er fullt tilefni til þess að bregðast við því. Þannig að þess vegna er þessi aukna stýring komin á miðborgina.“

Sigurborg segir að slík stýring ýti undir þá þróun að hótelbyggingar færist utar í borgina, eins og hafi til að mynda gerast á Suðurlandsbraut. Hafi verktakar eða aðrir áhuga á að fara með gististarfsemi sína lengra út í úthverfin verði starfsemi að vera innan hinna svokölluðu kjarna og við aðalgötur, sem getið er um í aðalskipulagi borgarinnar. Það sé gert til að lágmarka truflun af starfseminni í úthverfum.

Stefnunni er ætlað að sporna við fólksfækkun sem orðið hefur í miðborginni á síðustu árum. Vísir/Vilhelm

Borgin synjar fleiri leyfum en hún samþykkir

Sigurborg óttast ekki að hin aukna stýring verði til þess að ferðamenn leiti í auknum mæli í deilihagkerfið eftir gistingu, í gegnum síður eins og Airbnb og Home Exchange en hótelrekendur hafa gagnrýnt hversu erfitt reynst að innheimta opinber gjöld af heimagistingu.

„Það er nýbúið að setja ný lög um skammtímagistingu og ríkið er líka búið að tryggja fjármagn í að fylgja því eftir, þannig að við höfum ekki áhyggjur af þeim málaflokk eins og er.“ 

Morgunblaðið ræddi við verktaka sem lýstu furðu sinni á stefnu Reykjavíkurborgar og að þeirra sögn hefur stefnan orðið til þess að þeir hafi þurft að endurhugsa fyrirhuguð hótelverkefni. Sigurborg segist ekki hafa farið varhluta af óánægju verktaka með stefnu borgarinnar.

„Það er mikill þrýstingur, og hefur verið síðustu ár, gríðarlegur þrýstingur. Og ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir að borgin synjar miklu fleiri leyfum en hún samþykkir.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.