„Þetta veitir þeim 50% þátttöku í tannlæknaþjónustu og sama verð verður hjá öllum tannlæknum, almennum tannlæknum, þannig að þetta á að vera allt annað líf fyrir fólkið en við vonum að þetta sé kannski byrjunin á öðru,“ segir Elín Sigurgeirsdóttir, formaður Tannlæknafélagsins. Hún kveðst vona að þátttakan muni aukast í framhaldinu. „Ég er mjög ánægð fyrir hönd okkar skjólstæðinga að þetta skuli vera komið í gegn eftir fjórtán ár.“
Undanfarin fjórtán ár hefur verið föst gjaldskrá sem ekki hefur hækkað síðan 2004 heldur staðið í stað. „Við erum búin að fá yfir okkur efnahagshrun og allt hefur hækkað síðan þá þannig þessi þátttaka var komin niður í 27% að meðaltali en núna er þetta orðið 50% og það er jafnt hjá öllum,“ segir Elín.
Hafa séð dæmi um ofmeðhöndlun
Ferðir Íslendinga til útlanda til að sækja tannlæknaþjónustu hafa nokkuð verið til umræðu að undanförnu en Elín segir að mörgu að huga þegar þjónusta er sótt erlendis. „Það er ýmislegt sem getur komið upp því að fólk getur náttúrlega ekki alveg borið skynbragð af því sem það er að fá upp í munninn á sér. Við höfum verið að sjá ofmeðhöndlun, einhver sem þarf að fá eina krónu kannski kemur heim með sex,“ segir Elín og bætir við að það geti reynst varasamt.Þá segir hún segir eðlilegar skýringar vera á því hvers vegna tannlæknaþjónusta hér á landi sé mun dýrari hér á landi en annars staðar líkt og raun ber vitni um.
„Við búum í þjóðfélagi sem er ríkt og meðaltekjur Íslendingar eru mjög háar,“ segir Elín. „Það er allt talsvert miklu dýrara hér heima á Íslandi í innkaupum og húsakostnaði og launakostnaði og allt sem lýtur að þeim rekstri.“ Það sé þó undir hverjum og einum komið að taka ákvörðun. „Við verðum að gleðjast yfir því að við búum í frjálsu landi og öllum er frjálst að gera það sem að þeir telja að sé rétt fyrir sig.“