Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan 2-1 Breiðablik | Stjarnan tekur Blika út úr titilbaráttunni

Stefán Árni Pálsson á Samsung-vellinum í Garðabæ skrifar
vísir/daníel
Stjarnan komst upp að hlið Vals í efsta sæti Pepsi deildarinnar með 2-1 sigri á Breiðablik á Samsungvellinum í kvöld. Stjarnan er heldur betur með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Þorsteinn Már Ragnarsson og Baldur Sigurðsson skoruðu fyrir Stjörnuna í kvöld en Thomas Mikkelsen eina mark Blika. 

Af hverju vann Stjarnan?

Þeir einfaldlega nýttu sín færi og gerðu það vel. Blikar fengu heldur betur tækifæri til að jafna metin í kvöld og létu Harald Björnsson oft á tíðum verja frá sér og skutu einnig bara framhjá rammanum. Stjörnumenn voru ekkert endilega sterkari aðilinn í kvöld en þeir gerðu nóg til að ná í þessi þrjú mikilvægu stig. Blikar litu ekki nægilega vel út varnarlega í mörkum Stjörnunnar.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og svo oft áður var Hilmar Árni frábær og lagði hann upp bæði mörk Stjörnunnar. Hann var alltaf hættulegur og réðu Blikar illa við þennan frábæra leikmann. Guðjón Baldvins lét finna fyrir sér eins og vanalega og opnaði það vel fyrir aðra leikmenn Stjörnunnar. Haraldur Björnsson var stórkostlegur í marki Stjörnunnar og varði oft á tíðum frábærlega.

Hvað gekk illa?

Blikar komust oft á tíðum í frábæra leikstöðu en það var þessi klassíska úrslitasending sem var að klikka hjá þeim. Færanýting þeirra var einnig alveg til skammar og fengu þeir rosaleg færi oft í  leiknum. Þá voru menn oft eins og beljur á svelli fyrir framan markið.

Hvað gerist næst?

Stjörnumenn eru komnir í svakalega titilbaráttu og mætir liðið Val á miðvikudagskvöldið í svakalegum toppslag. Sennilega leikur sumarsins. Blikar eru í raun að stimpla sig út úr baráttunni og hefur liðið tapað tveimur sex stiga leikjum í röð. Það þarf rosalega mikið að falla fyrir þá til að Blikar verði Íslandsmeistarar.

Ágúst: Þetta er búið hjá okkur„Við erum að stimpla okkur út úr toppbaráttunni, það segir sig bara sjálft ,“ segir Ágúst Gylfason, þjálfari Blika, eftir leikinn.

„Þetta var góður leikur hjá okkur. Vorum kröftugir og áttum skilið að fá eitthvað út úr þessu. Seinni hálfleikur var mjög góður og við náum bara ekki að nýta þessi tvö frábæru færi sem við fáum.“

Ágúst segir að Stjarnan sé lið sem þekki svona toppbaráttu vel og heldur liðið núna áfram toppbaráttu við Valsmenn.

„Það var mikið um hrindingar og læti í þessum leik. Við skorum kolólöglegt mark og mér fannst þeir skora einnig skora kolólöglegt mark og þetta var í raun bara handboltadómgæsla fannst mér.“

Hann segir að Blikar hafi fengið fullt af tækifærum í seinni hálfleiknum en farið illa að ráði sínu.

„Svo var markmaðurinn þeirra líka heppinn nokkrum sinnum í kvöld og gerði stundum vel að ná að bjarga.“

Rúnar Páll: Það er eitthvað með okkur„Þetta var gríðarlega mikilvægur baráttusigur,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn.

„Við vörðumst hrikalega vel sérstaklega hér í síðari hálfleik. Áttum í raun undir högg að sækja og voru þeir aggresívir á okkur. Ég er hrikalega stoltur af strákunum eftir leikinn og það er eitthvað með okkur.“

Rúnar er ánægður með hvernig hans leikmenn nálguðust verkefnið í kvöld.

„Drengirnir þrífast á svona stórleikjum og sýndu það í kvöld. Við féllum kannski örlítið of mikið til baka undir lokin en þetta er mikil kúnst að loka svona leikjum.“

Rúnar segir að Stjörnumenn ætli sér sigur gegn Valsmönnum á miðvikudaginn.

„Við sækjum alltaf til sigur og þetta verður alvöru stórleikur. Leikir þessara liða hafa í gegnum árin verið bráðskemmtilegir og þannig verður leikurinn á miðvikudaginn.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.