Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - Breiðablik 2-3 │Tvö mörk frá Viktori í Víkinni

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Blikar eru á fljúgandi siglingu
Blikar eru á fljúgandi siglingu vísir/anton
Breiðablik heimsótti Víkinga í Fossvoginn í kvöld í hörkuleik í Pepsi deild karla. Leikurinn fór hægt af stað en það lifnaði svo sannarlega yfir honum á 30. mínútu er Geoffrey Castillion kom Víkingum yfir.Hans fyrsta mark í langan tíma en hann átti frábært sumar í fyrra hjá Víkingum en átti erfitt uppdráttar í liði FH framan af sumri en er nú kominn aftur og kvittaði fyrir sig með marki.Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís en á 38. mínútu jafnaði Breiðablik með marki frá Viktori Erni er hann skallaði knöttinn í netið af stuttu færi. Blikar voru varla búnir að fagna jöfnunarmarkinu er þeir voru komnir yfir.Willum Þór skoraði þá eftir ótrúlegan misskilning á milli Gunnlaugs Fannars, miðvörð Víkinga, og Andreas Larsen, markvörð, sem leiddi til þess að boltinn féll skyndilega fyrir fætur Willums sem þakkaði pent fyrir sig og setti boltann í netið.Staðan 2-1 í hálfleik en snemma í þeim síðari jók Breiðablik forystu sína með marki frá  Vikori Erni, en þetta var hans annað mark í leiknum. Ekki ónýtt fyrir miðvörð sem hafði fram að þessum leik aldrei skorað í efstu deild.Víkingar minnkuðu muninn eftir um klukkutímaleik er Geoffrey Castillion fiskaði vítaspyrnu og Nikolaj Hansen skoraði. Lengra komst Víkingur hinsvegar ekki og lokatölur 3-2, Blikum í vil, sem fara með sigrinum á toppinn. Víkingar eru hinsvegar nú búnir að tapa fjórum leikjum í röð og eru einunigs þremur stigum frá fallsæti.Afhverju vann Breiðablik?

Karakter og dass af heppni. Þetta er uppskrift Blika og hefur verið í allt sumar. Þetta annað mark sem kom liðinu yfir fyrir hlé og gaf þeim auðvelda braut að sigrinum í þeim seinni var svo kómískt og svo undarlegt að það er í raun enginn leið til að skilja hvað fór úrskeiðis í vörn Víkinga.Blikar nýttu það vel en þrátt fyrir að spila alls ekki mikið betur en Víkingarnir í dag þá fara Blikar með þrjú stigin heim. Ætli þetta sé ekki munurinn á milli þess að vera í fallbaráttu og toppbaráttu?En ekki misskilja mig. Heppni kemur ekki af sjálfum sér. Hver er sinnar gæfu smiður og það á svo sannarlega vel við græna liðið úr Kópavoginum.Hverjir stóðu upp úr?

Það ber fyrst að nefna Viktor Örn Margeirsson en miðvörðurinn í hjarta varnarinnar hjá Blikum skoraði tvö mörk sem geta svo sannarlega reynst gulls ígildi. Hann kann að hafa verið í hjarta varnar sem fékk á sig tvö mörk en þegar þú fyllir í gatið með því að setja tvö sjálfur er lítið hægt að setja út leik þinn.Geoffrey Castillion verður einnig að fá nokkur orð en þetta virðist vera allt annar maður frá tíma hans hjá FH. Hann var virkilega flottur og gerir lið Víkinga mun beittara sóknarlega. Ef Víkingur getur aðeins hreinsað til í varnarleik sínum hefur liðið svo sannarlega alla burði til að halda sér í efstu deild.Hvað gekk illa?

Varnarleikur Víkinga var ágætur, svona heilt yfir. En það er t.d. varla hægt að kalla það góða bílferð út á land ef þú kemst á leiðarenda eftir að keyra „einungis“ út í skurð þrisvar sinnum. Vörnin stóð vel megnið af tímanum en restina af leiknum var hún upptekin við að gefa Blikum ódýr mörk.Það er gott og blessað að fá Castillion aftur en ef Víkingar laga þetta ekki þá er voðin vís. Tvö skoruð mörk á heimavelli á alltaf að vera nóg til að fá a.m.k. eitt stig.Hvað gerist næst?

Blikar fá smá frí frá titilbaráttunni er liðið fær Víkinga frá Ólafsvík í heimsókn í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Víkingar eiga aftur á móti sex stiga fallslag framundan gegn Fjölni en Víkingar eru einungis þremur stigum á undan.Logi Ólafsson: Gríðarleg vonbrigði

„Gríðarleg vonbrigði. Við vorum með góð tök á leiknum í fyrri hálfleik en svo sofna menn á óskiljanlegan hátt á verðinum í föstu leikatriði og svo er einhver gríðarlegur misskilningur í öðru markinu og erfitt að skilja hvað gerðist þar,“ sagði svekktur Logi Ólafsson, þjálfari Víkinga, eftir tapið gegn Blikum í kvöld. Hann segir þó leikinn gott veganesti fyrir framhaldið þrátt fyrir dræma uppskeru í kvöld.„Ég held við getum dregið ýmisslegt jákvætt með okkur úr þessum leik. En við verðum að átta okkur á því að þegar við erum í þessari stöðu og fara fram á völlinn að jafna þá eru of margar ákvarðanatökur sem voru ekki nógu góðar,“ sagði Logi sem horfði einnig upp á sinn mann, Gunnlaug Fannar, vera rekinn útaf undir lok leiksins fyrir kjaftbrúkk.„Þetta var óskynsamlegt af honum. Við erum vissulega þunnskipaðir í öftustu línu en við reynum að finna mann til að spila þarna,“ sagði Logi en þar að auki er Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Geoffrey Castillion: Hérna líður mér vel

„Vonbrigði en við spiluðum heilt yfir vel. Við gerðum nokkur einstaklingsmistök sem kostuðu okkur leikinn. En frammistaðan var ekki slæm og við þurfum að finna lausnir á því og þá getum við byrjað að safna stigum,“ sagði Geoffrey Castillion í leikslok en framherjinn átti fínan leik þrátt fyrir tap er hann skoraði og fiskaði vítaspyrnu.Hann segir það vera gott að vera kominn aftur í Fossvoginn.„FH hefur átt bara erfitt yfir höfuð í sumar. En hérna líður mér eins og heima hjá mér og fæ frelsi að spila minn leik. Það hentar mér vel,“ sagði Castillion sem skoraði sitt fyrsta mark í sumar í kvöld.„Það er langt síðan ég skoraði síðast þannig ég vona að þau komi fleiri núna,“ sagði Castillion en sjálfstraustið hans mun örugglega njóta góðs af markinu.Hann segir að næsti leikur liðsins gegn Fjölni sé skyldusigur ætli liðið ekki að dragast mikið meir í fallbaráttuna.„Deildin er mjög jöfn og fyrst ÍBV sigraði sinn leik þá verðum við bara að vinna í næsta leik.“Viktor Örn Margeirsson: Tökum sigrinum fagnandi

„Það er fyrst og fremst sigurinn sem kætir en gaman að skora mín fyrstu mörk í efstu deild líka. Það var pirrandi að fá á okkur tvö mörk en ánægður með sigurinn,“ sagði Viktor Örn sem skoraði tvö af þremur mörkum Blika í kvöld. Hann segir að mikilvægast hafi verið að landa sigrinum í kvöld.„Það er ýmisslegt sem hefði mátt fara betur en við tökum sigrinum fagnandi,“ sagði Viktor en næsti leikur Blika er gegn Víkingi Ólafsvík í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.„Þeir eru með gott lið og ætla að fara áfram. Þannig við þurfum að mæta fulleinbeitir í leikinn til þess að vinna.“Ágúst Gylfasson: Sýndum mikinn karakter

„Við vissum að þetta yrði mjög erfiður leikur. Áttum erfiðan fyrsta hálftíma þar sem við héldum boltanum illa og Víkingar áttu skilið að komast yfir,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir erfiðan 3-2 sigur gegn Víkingum í Víkinni í kvöld.Breiðablik lenti 1-0 undir og áttu erfitt uppdráttar gegn hungruðum Víkingum sem sýndu klærnar í kvöld en Breiðablik náði svo forystunni með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla.„Það kemur einhver rosalegur kraftur í okkur og við skorum tvö með stuttu millibili. Sýndum mikinn karakter og fórum með það í seinni hálfleik og skoruðum þriðja,“ sagði Ágúst en þrátt fyrir að vera með tveggja marka forystu voru úrslitin ekki alveg ráðin er Víkingar minnkuðu muninn með marki Nikolaj Hansen úr vítaspyrnu.„Það fór smá um mann þegar þeir minnkuðu muninn í 3-2. En við sigldum þessu heim og fengum gríðarlega mikilvægan sigur í toppbaráttunni.“Annað mark Breiðabliks var skrautlegt með meiru er mikill misskilningur var á milli varnarmanns Víkinga, Gunnlaugs Fannars, og markvarðarins, Andreas Larsen, sem leiddi til þess að Willum Þór skoraði í autt mark Víkinga og kom Breiðablik í forystu. Ágúst segir sína menn af sjálfsögðu þyggja öll sambærileg mistök hjá andstæðingum sínum.„Við tökum því fegins auðvitað. En við skoruðum líka úr tveimur föstum leikatriðum sem var mjög sætt,“ sagði Ágúst sem er strax farinn að einbeita sér að næsta leik Blika sem er í undanúrslitum Mjólkurbikarsins er liðið fær 1. deildar lið Víkings Ólafsvíkur í heimsókn.„Við „tjösslum“ liðinu aðeins saman fyrir þann leik og sjáum hvernig staðan er á mönnum. Ætlum okkur í bikarúrslitin.“Breiðablik er nú á toppnum með á toppnum með 34 stig eftir 16. umferðir en bæði Valur og Stjarnan sem fylgja fast á eftir eiga leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira