Handbolti

Þjálfari Þjóðverja fyrir Íslandsleikinn: Þrastarson er án efa besti leikmaður mótsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson með verðlaun sín sem besti leikmaðurinn á móti Slóveníu.
Haukur Þrastarson með verðlaun sín sem besti leikmaðurinn á móti Slóveníu. Mynd/Heimasíða M18-Euro 2018
Íslenska 18 ára landsliðið í handbolta er að gera flotta hluti á EM U-18 í Króatíu og strákarnir mæta Þjóðverjum í dag í fyrsta leik sínum í milliriðli.

Erik Wudtke, þjálfari þýska liðsins, talar vel um íslenska liðið og þá sérstaklega um tvo leikmenn.

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson er markahæsti leikmaður mótsins eftir riðlakeppnina og markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson úr Fram hefur staðið sig mjög vel í marki Íslands.

Stórlið Evrópu eru að fylgjast vel með mótinu og þar má búast við að séu útsendarar frá liðum eins og Kiel, Barcelona og Paris Saint Germain. Frammistaða Hauks og Viktors Gísla hefur örugglega ekki farið framhjá þeim.

„Þrastarson er án efa besti leikmaður Evrópumótsins að mínu mati. Íslendingar eru líka með mjög öflugan markvörð,“ sagði Erik Wudtke við heimasíðu þýska handboltasambandsins.

Haukur hefur skorað 24 mörk í keppninni til þessa eða þremur fleiri en næsti maður. Haukur skoraði 12 mörk í sigri á Slóvenum í síðasta leik og þá lokaði Viktor Gísli markinu á meðan íslensku strákarnir náðu upp góðri forystu.

Þýski þjálfarinn talaði líka um að íslensku strákarnir væru harðir í horn að taka í varnarleiknum.

„Svíar spila kannski fjölbreyttari varnarleik en íslenska vörnin er sterk og allt annar varnarleikur en mínir menn fengu að kynnast í síðasta leik á móti framliggjandi Spánverjum,“ sagði Erik Wudtke.

Liðið sem vinnur leikinn í dag stígur stórt skref í átt að því að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar. Tvö efstu lið milliriðilsins komast þangað en Ísland og Þýskalandi tóku bæði með sér tvö stig úr riðlakeppninni af því að þau unnu sinni riðil.

Leikur Íslands og Þýskalands hefst klukkan 18.30 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Annar fimm marka sigur á EM

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann það sænska með fimm mörkum í Króatíu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×