Innlent

Sögulegt að báðir katlar Skaftárjökuls hlaupi

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur á Veðurstofunni í þyrluflugi yfir Skaftárjökli í gær. Hann segir sögulegt að báðir katlar Skaftárjökuls hlaupi á sama tíma en ekki sé vitað af hverju það gerist.
Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur á Veðurstofunni í þyrluflugi yfir Skaftárjökli í gær. Hann segir sögulegt að báðir katlar Skaftárjökuls hlaupi á sama tíma en ekki sé vitað af hverju það gerist.

Ekki er vitað hvað olli því að hlaup kom úr báðum kötlum Skaftárjökuls á sama tíma. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt gerist að sögn jöklafræðings á Veðurstofunni.

Hlaup hófst í eystri Skaftárkatli á föstudag og um hádegisbil í gær var talið að það hefði náð hámarki sínu. Þá kom í ljós að hlaup var einnig hafið í vestari Skaftárkatli. Þorsteinn Þorsteinsson er jöklafræðingur á Veðurstofunni.

„Rétt eftir hádegi á föstudag byrjar eystri Skaftárketill að hlaupa. Við bjuggumst við að það hlaup myndi ná hámarki um hádegisbil á laugardeginum en þá gerist það að rennslið heldur áfram að að rísa áfram og í ljós kom að hlaup var hafið í vestari katlinum. Það kom heldur betur á óvart að vestari ketillinn myndi hlaupa á sama tíma og koma ofaní hlaup úr þeim eystri,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir að þetta hafi ekki gerst áður. „Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum vatn koma úr eystri katlinum og ofaní það komi svo vatn úr þeim vestari. Það er ekki vitað af hverju þetta gerist. Ein ástæðan getur verið sú að vatnafarvegir sem myndast úr fyrra hlaupinu undir jöklinum og leysingar hafi  auðveldað vestari katlinum að komast af stað á sama tíma. Hins vegar hleypur venjulega sá vestari skömmu á eftir hinum eystri,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn  gladdist í þyrlufluginu yfir jöklinum gær þegar hann kom auga á GPS tæki í eystri katlinum sem hefur verið notað við mælingar og var talið glatað.

„Við erum vongóðir um að við getum náð síðustu gögnum úr tækinu fljótlega,“ segir hann að lokum. 
 
 
 
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.