Erlent

Obama skaut fast á Trump í ræðu í afmælisveislu Nelsons Mandela

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Barack Obama í pontu í Jóhannesarborg í gær.
Barack Obama í pontu í Jóhannesarborg í gær. Vísir/Getty

Ræða Baracks Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, á hundrað ára afmælishátíð Nelsons Mandela í Jóhannesarborg í Suður-Afríku vakti mikla lukku viðstaddra í gær. Fimmtán þúsund mættu til að hlýða á ræðuna og fór forsetinn fyrrverandi fögrum orðum um Mandela, en báðir voru þeir fyrstu svörtu forsetar ríkja sinna.

Hins vegar fór Obama ekki jafnfögrum orðum um eftirmann sinn, Donald Trump.

Obama sagði baráttu Mandela í upphafi hafa snúist um ættjörðina, um Suður-Afríku. „En fórnfýsi hans og leiðsögn, og helst af öllu það siðferðislega fordæmi sem hann setti, gerðu það að verkum að hreyfingin varð stærri og þýðingarmeiri. Ljós Mandela skein svo skært úr þessum litla klefa á Robbeneyju að jafnvel á áttræðisaldri gat hann veitt ungum háskólanema hinum megin á hnettinum innblástur.“

Þótt Obama hafi ekki nefnt Trump á nafn í ræðunni fór ekki á milli mála um hvern var að ræða þegar forsetinn fyrrverandi sagði: „Þróunin getur snúist í öfuga átt um stund, en á endanum munu hin réttlátu komast til valda.“

Obama sagði að nauðsynlegt væri að trúa staðreyndum. Án þeirra væri enginn grundvöllur fyrir samvinnu. Hann gæti til að mynda starfað með einhverjum sem gerði efnislegar aðfinnslur við Parísarsamkomulagið svo lengi sem málstaður viðkomandi byggðist á staðreyndum.

„En ég get ekki samsamað mig einhverjum sem segir loftslagsbreytingar þvætting, þvert á ályktanir næstum allra vísindamanna heimsins,“ sagði Obama.

Trump hefur undanfarin misseri sagst óviss um áhrif mannsins á loftslagsbreytingar en árið 2015 sagði hann að um kínverskt samsæri væri að ræða. Þá er vert að taka fram að Trump dró ríki sitt út úr umræddu samkomulagi á síðasta ári.

Trump stóð sjálfur í ströngu í gær við að svara ásökunum Demókrata og fjölmargra annarra um að hann hefði sýnt forseta Rússlands linkind á blaðamannafundi þeirra á þriðjudag. „Þótt ég hafi átt frábæran fund með NATO átti ég enn betri fund með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Því miður greina fjölmiðlar ekki frá málinu á þann hátt. Falsfréttamenn eru að ganga af göflunum,“ tísti Trump.


Tengdar fréttir

Trump segist hafa mismælt sig

Forsetinn segist trúa niðurstöðum leyniþjónusta Bandaríkjanna um afskipti Rússlands af forsetakosingunum 2016.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.