Innlent

Dæmdir fyrir ránstilraun í Vestmannaeyjum

Birgir Olgeirsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Vestmannaeyjum árið 2016.
Atvikið átti sér stað í Vestmannaeyjum árið 2016. Vísir/pjetur

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt tvo karlmenn til sex mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir tilraun til ráns í Vestmannaeyjum árið 2016.

Mennirnir tveir voru ákærðir fyrir að hafa hótað manni líkamsmeiðingum í því skyni að hafa af honum fjármuni. Fór annar af þeim sem væru dæmdir með manninn inn í anddyri Landsbankans á Bárustíg í Vestmanneyjum á meðan hinn stóð vörð.

Í anddyrinu var reynt að neyða manninn til að taka fjármuni út úr hraðbankanum. Var manninum meinað að komast út úr anddyri bankans þegar hann gerði tilraun til þess.

Þá var annar mannanna sakaður um að hafa slegið manninn í hnakkann þannig að hann féll í götuna en af árásinni hlaut hann bólgu aftan á hnakkann.

Í frumskýrslu lögreglu kom fram að sá sem fyrir árásinni varð hefði greint frá því að hann hefði verið á Lundanum í Vestmannaeyjum. Eftir að staðnum hafði verið lokað hefði maður nálgast hann og sagt að hann skuldaði sér 15 þúsund krónur.

Var farið með manninn að hraðbanka þar sem hann reyndi að taka út pening en það ekki tekist. Þegar þeir fóru út úr hraðbankanum var maðurinn sleginn í hnakkann. Maðurinn sagðist hafa verið mjög hræddur en náð að hlaupa í burtu og sagðist hafa falið sig í skurði í nágrenninu og verið þar í töluverðan tíma og svo gengið þaðan inn á lögreglustöðina.

Mennirnir tveir voru dæmdir til sex mánaða fangelsisvistar sem er skilorðsbundin til tveggja ára, haldi þeir skilorði. Þá voru þeir dæmdir til að greiða allan sakarkostnað og kostnað verjenda sinna sem nam rúmlega 900 þúsund krónum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.