Erlent

Guterres til Eþíópíu í kjölfar friðarsamkomulags

Atli Ísleifsson skrifar
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, tók við embætti forsætisráðherra landsins í apríl.
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, tók við embætti forsætisráðherra landsins í apríl. Vísir/Getty
António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er nú á leiðinni til Eþíópíu, daginn eftir undirritun sögulegs friðarsamkomulags stjórnvalda í Eþíópíu og Erítreu.

Guterres hyggst funda með Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, í höfuðborginni Addis Abeba í kvöld. Ahmed var enn staddur í Asmara, höfuðborg Erítreu, í morgun þar sem hann og Isaias Afwerki Erítreuforseti undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um frið og vinskap ríkjanna.

Harðar deilur hafa staðið milli ríkjanna síðustu tuttugu árin og skal nú stefnt að hefðbundnu stjórnmálasambandi og opnun landamæra.

Leiðtogarnir greindu frá því í gær að byrjað verði að fljúga milli landanna, hafnir skulu opnaðar, að fólk verði gert kleift að ferðast milli landanna og að sendiráð skuli opnuð.

Deilur ríkjanna má einna helst rekja til stríðsins á árunum 1998 til 2000 þar sem deilt var um landamæri ríkjanna. Um 80 þúsund manns fórust í stríðinu.

Abiy Ahmed tók við embætti forsætisráðherra Eþíópíu í apríl síðastliðinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.