Innlent

Vilja að kjararáð verði lagt niður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vísir/ernir
Kjararáð verður lagt niður nái frumvarp meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingi fram að ganga.

Í frumvarpinu er lagt til að lög um kjararáð verði felld brott, en þrátt fyrir gildistöku laganna skulu allir þeir sem falla undir úrskurðarvald ráðsins halda kjaraákvörðunum þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun þeirra og starfskjör.

Í greinargerð með frumvarpinu eru helstur niðurstöður starfshóps um málefni kjararáðs sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skipaði í janúar raktar.

Starshópurinn átti að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá dómurum, kjörnum fulltrúum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja síðan fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs ef annað fyrirkomulag væri líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa fyrrnefndra aðila.

Ein af tillögum starfshópsins var að „horfið verði frá því að úrskurða í kjararáði, eða hjá sambærilegum úrskurðaraðila, um laun þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra,“ eins og segir í greinargerðinni.

Þar kemur jafnframt fram að í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sé nú „unnið að gerð frumvarps þar sem kveðið er á um að ákvörðun launa þeirra sem nú falla undir úrskurðarvald kjararáðs verði hagað með hliðsjón af þeim tillögum sem starfshópurinn um málefni kjararáðs lagði til í skýrslu sinni. Með því frumvarpi er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem nú heyra undir ákvörðunarvald kjararáðs, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2016. Gert er ráð fyrir því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í haust eftir samráð við þá sem frumvarpið snertir fyrst og fremst.

Skipunartími núverandi ráðsmanna kjararáðs rennur út 30. júní 2018. Í ljósi þess að nú er unnið að gerð frumvarps, þar sem stefnt er að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem nú heyra undir ákvörðunarvald kjararáðs, þykir ekki rétt að nýtt kjararáð verði skipað og er því nauðsynlegt að fella úr gildi lög um kjararáð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×